Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 91. fundur,  30. mars 2023.

vantraust á dómsmálaráðherra.

924. mál
[11:54]
Horfa

Ásthildur Lóa Þórsdóttir (Flf):

Virðulegur forseti. Þetta mál snýst um það hvort Alþingi geti sinnt hlutverki sínu eftir því sem það telur best hverju sinni og hvort það fái þau gögn sem það telur sig þurfa eða ekki. Það skiptir engu máli hvaða mál var til afgreiðslu þegar Alþingi óskaði eftir þeim upplýsingum sem ekki fengust afhentar og voru kveikjan að þessu vantrausti. Málið snýst einfaldlega um að í því tilfelli fékk Alþingi ekki afhent þau gögn sem það óskaði eftir og að það var ráðherra sem neitaði að afhenda eða kom í veg fyrir að viðeigandi stofnun afhenti Alþingi þau gögn. Það má ekki líðast og alls ekki endurtaka sig. Við erum með þrískiptingu ríkisvalds og það er lögbundið hlutverk Alþingis að hafa eftirlit með framkvæmdarvaldinu og veita því aðhald. Alþingi getur ekki sinnt því hlutverki sínu ef það er háð geðþóttaákvörðunum framkvæmdarvaldsins um hvort það upplýsi þingið eða afhendi umbeðin gögn.

Ákvæði 51. gr. þingskapa felur í sér þá meginreglu að Alþingi eigi aðgang að upplýsingum frá stjórnvöldum sem eru því nauðsynlegar til að þingið geti gegnt hlutverki sínu. Það má aldrei líðast að við umgöngumst þessa reglu eftir aðstæðum hverju sinni eða því hvort við erum fylgjandi því máli sem um ræðir eða ekki. Það að neita að afhenda Alþingi eða nefndum Alþingis umbeðin gögn er alger vanvirðing við Alþingi Íslendinga og kjörna fulltrúa. Til að Alþingi geti afgreitt hvaða mál sem er með viðunandi hætti þarf það að fá þau gögn sem máli skipta. Um það ætti ekki að þurfa að deila. Flokkur fólksins mótmælir harðlega að komið sé fram við Alþingi með þessum lítilsvirðandi hætti og styður því þessa vantrauststillögu. Ef ekki er hægt að treysta ráðherra dóms og laga til að fara að lögum, hverjum er þá treystandi?