Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 91. fundur,  30. mars 2023.

vantraust á dómsmálaráðherra.

924. mál
[12:06]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Það var í sjálfu sér ekki margt sem kom á óvart í þessari umræðu um vantrauststillöguna á hendur hæstv. dómsmálaráðherra en það setur að mér beyg þegar hv. þingmenn og hæstv. ráðherrar meiri hlutans gera stjórnarandstöðuþingmönnum ítrekað upp skoðanir og vilja og hugsanir. Það er vond pólitík, hún er ódýr (Gripið fram í: Heyr, heyr.) og hún er ógeðfelld. Þessi tillaga fjallar um valdmörk á milli löggjafarvalds og framkvæmdarvalds eða réttara sagt þegar þau eru brotin eða stigið yfir þau. Það er mjög alvarlegt mál, frú forseti. Vörn löggjafans gegn gerræði framkvæmdarvaldsins verður að halda. Ég vona að þingmenn geti sett sig í þau spor að þeir þurfi einhvern tímann að vera í öðrum hlutverkum en þeir eru í núna. Það á líka við um hæstv. ráðherra. Hér verður væntanlega sett mjög hættulegt og mjög varhugavert fordæmi vegna valdmarkanna á milli löggjafans og framkvæmdarvaldsins ef atkvæðagreiðslan fer eins og mig grunar að hún fari í ljósi umræðunnar.

Hæstv. ráðherrar, m.a. hæstv. forsætisráðherra, hefur orðað það svo að löggjöfin skeri sig úr, þessi tilhögun sé ekki til sóma og hér sé um lögfræðilega deilu að ræða. Hæstv. utanríkisráðherra orðaði það líka þannig og smættaði þetta niður í lögfræðilegt úrlausnarefni. Það er stef sem við heyrum oft héðan úr ræðustóli Alþingis en hér er miklu stærra málefni á ferðinni en að hægt sé að smætta það niður í lögfræðilegt úrlausnarefni sem síðan er hægt að álykta og gagnálykta um. Við erum að tala um fordæmisgildi til framtíðar. Við erum að tala um varnir löggjafarsamkomunnar gegn gerræði einstakra ráðherra eða framkvæmdarvaldsins. Við verðum að hafa hér á hinu háa Alþingi hrygglengjuna til að taka þá umræðu án þess að hún sé lituð af ásökunum um persónulegar ástæður eða illvilja, eins og það hefur verið orðað, eða eitthvert fúllyndi, eins og það hefur næstum því verið orðað, því að þetta mál er svo miklu stærra.