Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 91. fundur,  30. mars 2023.

vantraust á dómsmálaráðherra.

924. mál
[12:09]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegi forseti. Ráðherra dóms og laga þarf að vera hafinn yfir allan vafa um lögbrot. Ég er einn flutningsmanna þessarar vantrauststillögu. Það er ekki gert af léttúð að leggja fram vantraust á ráðherra ríkisstjórnarinnar. Það er ekki gert til að ná höggi á pólitískan andstæðing. Við leggjum þessa tillögu fram til þess að verja Alþingi, til að verja löggjafann gegn ofríki og geðþóttaákvörðunum ráðherra og til að verjast því til framtíðar að Alþingi sé hindrað í lögbundnum störfum sínum.

Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hefur haft til umfjöllunar þá ákvörðun dómsmálaráðherra að afhenda Alþingi ekki umbeðin gögn. Allsherjar- og menntamálanefnd óskaði eftir gögnunum á grundvelli heimildar 1. mgr. 51. gr. þingskapa Alþingis. Ráðherrann sagði um það á opnum fundi allsherjar- og menntamálanefndar, með leyfi forseta:

„51. gr. þingskapa á ekki við í þessu tilfelli. Hún er í þeim kafla í þingskapalögum sem fjallar um eftirlit þingsins með framkvæmdarvaldinu. Hér er ekki um að ræða eftirlitshlutverk þingsins með framkvæmdarvaldinu heldur er undirstofnun að vinna ákveðna vinnu fyrir Alþingi. Þetta á ekki við í þessu tilfelli.“

Ráðherra taldi sem sagt að 51. gr. þingskapalaga ætti ekki við varðandi umbeðnar upplýsingar. Nú hefur borist lögfræðiálit frá skrifstofu Alþingis sem staðfestir að 51. gr. þingskapa Alþingis eigi við umbeðnar upplýsingar og 2. mgr. 6. gr. laga um ríkisborgararéttindi bindi ekki hendur Alþingis.

Ég vil af þessu tilefni lesa úr niðurlagi álitsins, með leyfi forseta:

„Þó ákvæði 51. gr. þingskapa hafi ekki verið hugsað til að nota í málum sem varða veitingu ríkisborgararéttar felur ákvæðið í sér þá meginreglu að Alþingi eigi aðgang að upplýsingum frá stjórnvöldum sem eru því nauðsynlegar til að þingið geti gegnt hlutverki sínu.“

Ekkert hér á vegum Flokks fólksins varðar það hvort við eigum að veita ríkisborgararétt. Það er enginn vafi á því, þetta er bara spurning um lög. Alþingi fór fram á upplýsingar frá stjórnvöldum. Ráðherrann kom í veg fyrir afhendingu þeirra. Ráðherra braut lög. Þannig vó hann gegn stjórnarskrárvarinni þrígreiningu ríkisvaldsins og lýðræðishlutverki og löggjafarvaldi Alþingis.

Eins og ég sagði í upphafi: Ráðherra dóms og laga verður að vera hafinn yfir allan vafa um að hafa brotið lög — allan vafa. Því ber honum að víkja.