Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 91. fundur,  30. mars 2023.

vantraust á dómsmálaráðherra.

924. mál
[12:27]
Horfa

Lenya Rún Taha Karim (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Staðan sem er komin upp hér er frekar vandræðaleg, ef ég á að vera hreinskilin. Hlutverk stjórnarandstöðunnar er að veita ríkisstjórninni og framkvæmdarvaldinu aðhald en það er svo sannarlega ekki hlutverk stjórnarandstöðunnar að minna ríkisstjórnina á að starfa lögum samkvæmt og sérstaklega eftir stjórnarskránni og lögum um þingsköp. Ég hef margoft sagt það hér í pontu að hér ríkir þingræði en ekki ráðherraræði og þegar stjórnvöld hafa brugðist lögbundinni skyldu sinni til að verða við beiðni þingsins um að afhenda nauðsynleg gögn og upplýsingar samkvæmt þingskapalögum, að beiðni og ákvörðun ráðherra, hefur ráðherra farið á skjön við lög um þingsköp og við meginregluna um þrískiptingu ríkisvaldsins. Þetta er grafalvarleg staða sem er hér uppi, virðulegi forseti, og vinnubrögð ríkisstjórnarinnar á þessu kjörtímabili hafa ekki verið Alþingi til sóma og hafa grafið undan trausti almennings til lýðræðisins. Orðræða hæstv. ráðherra sem hingað hafa komið og afvegaleitt umræðuna á þann hátt að þetta snúist um útlendingamál frekar en brot ráðherra á þingskapalögum (Forseti hringir.) og vanvirðingu við meginregluna um þrískiptingu ríkisvaldsins, er heldur ekki Alþingi til sóma og hreinlega til skammar. (Forseti hringir.) Gangist við mistökum ykkar og viðurkennið að þessi ríkisstjórn er varla stjórntæk.