Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 91. fundur,  30. mars 2023.

vantraust á dómsmálaráðherra.

924. mál
[12:34]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Hvert erum við komin ef við munum samþykkja það hér að láta það viðgangast að brjóta lög? Hvaða skilaboð sendum við samfélaginu, því sama samfélagi og við ætlumst til að hlýði þeim lögum sem sett eru hér á hinu háa Alþingi Íslendinga? Hvert erum við komin ef fordæmið sem við sendum út í samfélagið styður það að brjóta lög? Það er spurning sem ég held að við verðum öll að velta verulega vandlega fyrir okkur áður en við greiðum atkvæði. Í öðru lagi: Allt þetta bull og allt þetta mal og allt þetta mas um það að einhverjir séu að stýra stjórnarandstöðunni í einhverri pólitískri herferð — og að við stöndum hér öll saman bara af því að við séum svo rosalega vond og viljum eyðileggja þessa ríkisstjórn — þá vil ég bara minna á að Flokkur fólksins stóð heils hugar á bak við hæstv. dómsmálaráðherra þegar hann kom hér með sitt útlendingafrumvarp. Við skulum ekkert gleyma því.

Þetta er bara húmbúkk sem verið er að reyna að bera hér á borð.