Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 91. fundur,  30. mars 2023.

vantraust á dómsmálaráðherra.

924. mál
[12:35]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Af orðum stjórnarliða að dæma þá erum við hér að ræða vantraust á skjalaskrá Útlendingastofnunar, en sú er alls ekki raunin. Við erum að ræða grundvallaratriði þar sem skjöl frá Útlendingastofnun koma jú við sögu, en grundvallaratriðið er það að Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra beitti sér gegn afhendingu gagna til Alþingis. Hann fékk stofnunina með sér í það lið og gerði hana samseka í brotum á 51. gr. þingskapalaga. Stjórnarflokkarnir eru með mjög skýra talpunkta, það er réttmætur ágreiningur, lögfræðilegur vafi eða lögfræðilegur ágreiningur eftir því hvaða flokkur talar. Eini ágreiningurinn hér er að Sjálfstæðisflokknum finnst annað. Sjálfstæðisflokknum finnst að Alþingi eigi að semja lög öðruvísi og þess vegna finnst þeim vera ágreiningur. Í atkvæðagreiðslunni hér á eftir fáum við að sjá hversu langt flokkshollustan nær, hvort stjórnarliðar séu orðnir (Forseti hringir.) flokkshollir Sjálfstæðisflokki umfram allt, hvort spádómsorðin um að þau yrðu öll Framsóknarmenn í þessu stjórnarsamstarfi séu orðin að því að þau séu öll Sjálfstæðismenn inn við beinið.