Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 91. fundur,  30. mars 2023.

vantraust á dómsmálaráðherra.

924. mál
[12:38]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Hér hefur verið rætt um þrískiptingu ríkisvalds, upplýsingarétt Alþingis, eftirlitshlutverk þingsins og mikilvægi þess að þingið geti veitt framkvæmdarvaldinu aðhald. Eru þetta kjarnaatriði þess máls sem við höfum verið að ræða hér í dag? (Gripið fram í: Já.) Mér sýnist ekki. Alþingi er í þessu máli að kalla eftir því að stjórnkerfið, Útlendingastofnun í þessu tilviki, framleiði gögn, þ.e. útbúi umsögn fyrir Alþingi. (Gripið fram í.) Eru þetta gögn í skilningi laganna, gögn sem ekki eru til heldur á eftir að búa til? Ég tel ekki. Gögnin sem Alþingi hefur getað fengið hafa staðið til boða, það eru gögnin sem eru til í stjórnkerfinu. Þau gögn gat Alþingi fengið en lét sér ekki duga. Því er krafan um það að framkvæmdarvaldið búi til gögn sem ekki eru til og þess vegna er búið að slíta allar lagareglur sem um þessi efni fjalla algjörlega úr eðlilegu samhengi. (Forseti hringir.) Þegar í lögum er talað um þingbundna stjórn, upplýsingarétt, eftirlitsvald Alþingis o.s.frv. er verið að ræða um allt annað en hér er undir. Það eru engin lög undir hér sem hægt er að segja að hafi verið brotin.