Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 91. fundur,  30. mars 2023.

vantraust á dómsmálaráðherra.

924. mál
[12:41]
Horfa

Lenya Rún Taha Karim (P) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Við getum alveg farið í lögfræðilega túlkunarleikfimi á 1. mgr. 51. gr. þingskapalaga, en lögin eru skýr. Synjun stjórnvalda á beiðni þingsins um afhendingu gagna er bundin skilyrðum sem kveðið er á um í 1. mgr. 51. gr. laganna og það er ekki að sjá að þau skilyrði hafi verið uppfyllt.

Að lokum minni ég líka á að hæstv. dómsmálaráðherra hefur tekið fram á opinberum vettvangi að þessi vinnubrögð stjórnvaldsins sem hér um ræðir séu af völdum fyrirmæla og ákvarðana hans. Líkt og áður hefur komið fram, þá snýst þetta um rétt Alþingis samkvæmt lögum til að fá afhent gögn sem það biður um, ekki um útlendinga, jafnvel þótt hæstv. ráðherrar vilji meina það. Ef þessi þróun heldur áfram í samskiptum Alþingis við ráðherra, þá verður skapað hættulegt fordæmi fyrir því að ráðherrar sinni bæði hlutverki löggjafarvaldsins og framkvæmdarvaldsins — í umboði ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur. Ég held að við getum öll sammælst um að það geti ekki verið hollt fyrir réttarríkið.