Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 91. fundur,  30. mars 2023.

vantraust á dómsmálaráðherra.

924. mál
[12:44]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Hér hafa nokkrir hv. þingmenn meiri hlutans komið upp og talað um að það sé eðlilegt að stjórnarandstaðan sé með vesen. Ég hef áframhaldandi skilning á því að þingmenn meiri hlutans þurfi að tyggja frasa af þessu tagi til þess að geta sofnað á kvöldin. Hins vegar langar mig að benda á að mér sýnist málum vera öfugt farið í þessu máli. Mér sýnist staðan augljóslega vera sú, sem þingmönnum meiri hlutans ætti líka að vera augljóst, að þessi tillaga er byggð á traustum grunni, lögfræðilegum rökum og raunverulegum áhyggjum af stöðu Alþingis. Hins vegar er afstaða meiri hlutans hér byggð á pólitík.

Ég ætla að fá að lesa, með leyfi forseta, yfirlýsingu framkvæmdastjórnar ungliðahreyfingar eins stjórnarflokksins:

„Framkvæmdastjórn UVG styður heilshugar vantrauststillögu á Jón Gunnarsson, dómsmálaráðherra.

Dómsmálaráðherra hefur sannað það með sífelldum afglöpum og vanvirðingu í störfum sínum að hann er fullkomlega vanhæfur. (Forseti hringir.)

Framkvæmdarstjórn Ungra Vinstri grænna hvetur þingheim eindregið til þess að styðja tillöguna, það er löngu tímabært að fella þennan stjórnlausa ráðherra af stóli.“

Þetta er ekki ungliðahreyfing stjórnarandstöðunnar, (Forseti hringir.) þetta er ekki ungliðahreyfing Pírata; þetta er ungliðahreyfing stjórnarflokks.

(Forseti (BÁ): Forseti minnir enn á að ræðutími er takmarkaður í umræðu um atkvæðagreiðslu.)