Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 91. fundur,  30. mars 2023.

vantraust á dómsmálaráðherra.

924. mál
[12:46]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það er bara sjálfsagt mál fyrir stjórnarandstöðuna að flytja vantrauststillögu þegar henni sýnist og þá ætti kannski að ræða meiri pólitík en hefur verið boðið upp á hér í dag. Hér er verið að benda á það að þegar Alþingi kallar eftir því að stjórnkerfið framleiði gögn sem þarf til þess að taka ákvarðanir á Alþingi um lagasetningu, (Gripið fram í.) framleiði gögn — að sjálfsögðu, enginn ágreiningur er um að það er hlutverk stofnunarinnar að skila þessum gögnum til þingsins þegar það er hægt. Það sem ráðherrann hefur gert í þessu máli er ekkert annað en það að málin séu unnin í réttri röð. Það er algerlega fráleitt að segja að ráðherrann hafi haldið gögnum, sem ekki eru til, frá þinginu. Þetta er algerlega fráleit nálgun og alger útúrsnúningur. Og að beita fyrir sig lögum og reglum sem snúa að eftirlitshlutverki þingsins (Gripið fram í.) — með hvaða hætti, hv. þingmenn, er þingið að beita eftirlitshlutverki sínu með framkvæmdarvaldinu þegar það kallar eftir umsögn Útlendingastofnunar til að geta tekið ákvörðun um beiðni um ríkisborgararétt? (Forseti hringir.) Ég sé bara ekki samhengið. Þetta mál er á algerum misskilningi byggt.