Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 91. fundur,  30. mars 2023.

vantraust á dómsmálaráðherra.

924. mál
[12:49]
Horfa

Eva Sjöfn Helgadóttir (P) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Öllum ber okkur að fylgja lögum og þar eru ráðherrar auðvitað meðtaldir. Raunar ber ráðherrum að vera fyrirmyndir almennra borgara hvað það varðar, fyrirmyndir sem hafa lögin í hæstu hávegum. Það er því bersýnilega og augljóslega óverjandi þegar ráðherra dómsmála brýtur gegn ákvæðum þingskapalaga. Það er enn fremur ótrúlega undarlegt að ríkisstjórnin raði sér hér upp í pontu og verji ráðherrann. Við eigum að geta treyst því að ráðherra fari ekki með lagabókstafinn eftir hentisemi eða geðþótta. Ráðherrum í ríkisstjórn ber að fara að lögum og hér er þingbundin stjórn. Alþingi má og á að afla þeirra gagna sem það þarf til að geta unnið sína vinnu. Ef þingnefnd krefst þess að fá upplýsingar frá stjórnvaldi þá skal stjórnvaldið verða við þeirri beiðni. Þetta er mjög skýrt. Þessi atkvæðagreiðsla snýst í raun og veru aðeins um eitt, hvort þingheimur standi með þrískiptingu ríkisvaldsins og lýðræðinu sjálfu eða ekki.