Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 91. fundur,  30. mars 2023.

vantraust á dómsmálaráðherra.

924. mál
[13:06]
Horfa

Tómas A. Tómasson (Flf):

Virðulegi forseti. Hv. þingmenn, hæstv. ráðherrar og kæra þjóð. Sitt sýnist hverjum. Eva Sjöfn Helgadóttir talaði um að veita fordæmi. Eins og allir vita var Alþingi Íslendinga stofnað 930. Á árunum 985 til 1001 var Þorgeir Ljósvetningagoði Þorkelsson lögsögumaður. Á þeim tíma risu upp deilur milli kristinna manna og heiðinna. Þorgeir var þá leiðtogi síðarnefndra, en leiðtogi kristinna manna var Síðu-Hallur. Sagt er að til að komast að niðurstöðu hafi Þorgeir lagst undir feld í nokkurn tíma og síðan ákveðið að Ísland skyldi vera kristið en leyfa útburð barna, át á hrossakjöti og blót ef það var gert í laumi. Ég stend hérna og upplifi það að ég er eins og vindpoki á flugvellinum uppi á Sandskeiði. Ég er búinn að hlusta á ykkur og eftir því sem ég heyri þá trúi ég báðum aðilum og segi eins og Sókrates: Ég veit það eitt að ég veit ekki neitt. Þess vegna greiði ég ekki atkvæði.