131. löggjafarþing — 92. fundur,  17. mars 2005.

Sveitarstjórnarlög.

639. mál
[11:00]

félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér þykja rök Samfylkingarinnar orðin harla þunn þegar það helsta sem hv. þm. Kristján Möller getur fundið sér til að ræða í ræðustól er að tala niður til embættismanna félagsmálaráðuneytisins. Lítið lagðist fyrir kappann. Ef ég ætti að leggja mat á vinnu þeirra þá mundi ég ekki kalla þá Rip, Rap og Rup heldur vitna í heilaga ritningu og kalla þá vitringana þrjá, hv. þingmaður. Mér þykir lítið leggjast fyrir kappann að finna þau helstu í rök í þessu máli að tala niður til starfsmanna félagsmálaráðuneytisins. (Gripið fram í: En hvað með klúðrið?)

Það sem hér er um að ræða, hæstv. forseti, er að fresta sameiningarkosningu til að gera sveitarfélögunum kleift að undirbúa kosninguna með þeim hætti sem nauðsynlegt er. Það var lagt upp með að þessi kosning færi fram á vordögum. Það var líka lagt upp með að samstaða tækist í tekjustofnanefnd fyrr en varð. Það tókst hins vegar ekki. Hv. þingmaður getur kallað það klúður mín vegna. Það skiptir mig ekki nokkru máli. Það sem skiptir mig máli er að það fáist niðurstaða í þetta mál, niðurstaða í takt við það sem lagt var upp með. Ég vonast til að það geti orðið og vonast til að sveitarfélögin haldi áfram að stækka og eflast, haldi áfram að taka sér fleiri, öflugri og verðugri verkefni. Ég er sannfærður um að það er leiðin til að viðhalda byggð í landinu og eins og ég hef áður sagt tel ég að þetta sé eitthvert almesta byggðaverkefni sem við höfum lagt upp í.