136. löggjafarþing — 92. fundur,  4. mars 2009.

fundarstjórn.

[12:23]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Það er eins og í þjóðsögunni þegar hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir kemur upp í stólinn að sjaldan bregður mær vana sínum, hún ræðst á manninn en ekki málefnið og hún verður að eiga það við sjálfa sig og sína kjósendur og sitt fólk.

Það sem ég geri hins vegar athugasemd við og fullkomlega þinglega athugasemd við er að þegar nefndarmenn hafa fjallað um mál og gera við það fyrirvara á nefndaráliti, eiga þeir að skýra þann fyrirvara með einhverjum hætti. Ég geri ráð fyrir að þeim gefist kostur á því við 3. umr. að gera það en þetta er sumsé þannig að málið sem við höfum falið þeim að kanna í sinni nefnd, þau gera okkur ekki grein fyrir því hvernig sú könnun fór fram og hvaða fyrirvara þeir gera við málið og hvaða skoðun þeir hafa á því. Og þeir eru heldur ekki, eins og ég bendi á, mættir í salinn til þessarar atkvæðagreiðslu þó að þeir hafi ekki beðið forseta um leyfi (Forseti hringir.) til fjarvistar. Ég hvet forseta eindregið (Forseti hringir.) til þess að tala við þessa þingmenn og segja þeim frá því að hér sé beðið um það að þeir geri grein fyrir fyrirvara sínum og þeir geri það þá við 3. umr. málsins hvenær sem hún fer fram.