136. löggjafarþing — 92. fundur,  4. mars 2009.

kosningar til Alþingis.

368. mál
[13:21]
Horfa

Sturla Böðvarsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þingmaðurinn grípur til þeirra ráða að gera sjálfstæðismönnum upp skoðanir. Það hefur hvergi komið fram af hálfu þingmanna Sjálfstæðisflokksins að þeir séu andvígir breytingum sem fela í sér aukna möguleika á persónuvali, það hefur hvergi komið fram. Ég hef ekki haldið þeim skoðunum fram. Ég tel að við eigum að gera breytingar á kosningalögum sem fela einmitt í sér aukna möguleika á persónuvali, ég hef lengi verið þeirrar skoðunar.

Hér er leikinn sá leikur að ganga þannig fram af hálfu ríkisstjórnarflokkanna með Framsóknarflokkinn í eftirdragi að reyna að skapa ófrið um málið. (Gripið fram í.) Það er alveg augljóst að tilgangurinn hjá flutningsmönnum þessa frumvarps er fyrst og fremst sá að skapa ófrið. Það er ekki skynsamlegt og fjarri því að vera málefnaleg aðferð eða leið til þess að ná mikilvægri og góðri niðurstöðu í þeim breytingum sem hér eru ræddar og ég vænti þess að við fáum tækifæri síðar í dag til að ræða þetta efnislega. (Forseti hringir.) Og ég er tilbúinn til þess, hæstv. forseti.