138. löggjafarþing — 92. fundur,  16. mars 2010.

þjónustu- og öryggisstig löggæslu á Íslandi.

[14:33]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (Vg):

Frú forseti. Ég byrja á að þakka hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur fyrir að taka þetta mál hér upp. Þetta er mjög brýnt mál og mikilvægt og það dregur enginn í efa hið mikla öryggis- og þjónustuhlutverk sem lögreglan fer með í landinu. Þar eru unnin mikilvæg störf og um þau ríkir ánægja meðal þjóðarinnar sem ber mikið traust til lögreglunnar um allt land. Ég held að hér sé vert að þakka lögreglunni um allt land fyrir hennar störf, og tek þar undir með hv. þm. Róberti Marshall. Það er eftir því tekið hversu vel hún hefur staðið sig, oft og tíðum við mjög erfiðar og þröngar aðstæður.

Það er alveg rétt að við erum að glíma við mikinn niðurskurð, um það eru allir sammála að það verður erfitt að takast á við. Ég er þeirrar skoðunar, og tek undir með hv. þm. Steinunni Valdísi Óskarsdóttur, að við verðum að gæta mjög vel að því við næstu fjárlagagerð að ekki sé gengið frekar að lögreglunni í landinu. Við þurfum jafnframt að fara að huga að einhverjum skipulagsbreytingum því að ef ná á fram hagræðingu verður það gert með skipulagsbreytingum.

Af því hv. þm. Siv Friðleifsdóttir kom inn á það sem hv. þm. Atli Gíslason nefndi er varðar ríkislögreglustjóra, er ég honum hjartanlega sammála. Þar má stokka upp og það mætti leggja ríkislögreglustjóraembættið niður í núverandi mynd, eins og hv. þingmaður sagði. Þar eru unnin verkefni sem hægt er að flytja annað. Þetta embætti hefur bólgnað meira út en hin almenna löggæsla og hann var einfaldlega, að ég hygg, að benda á það.

Það er líka annað sem mér finnst mjög mikilvægt að komi fram í umræðunni, það er staða landsbyggðarinnar og löggæslunnar. Mikil ólga er á landsbyggðinni með það þegar ráðist er í niðurskurð í löggæslumálum. Það er að gefnu tilefni því að reynslan hefur alla jafna verið sú að allar sameiningar hafa bitnað mest á hinum dreifðu byggðum landsins þar sem vegalengdirnar eru miklar. Þetta sjáum við núna mjög víða. (Forseti hringir.) Það verður einfaldlega að hafa hugann við þetta. Ég vil hvetja hæstv. dómsmálaráðherra (Forseti hringir.) til að hafa þetta sérstaklega í huga þegar hún fer að vinna að fjárlagagerð 2010. (Forseti hringir.)