140. löggjafarþing — 92. fundur,  30. apr. 2012.

heilbrigðisstarfsmenn.

147. mál
[17:23]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Við ræðum við 3. umr. breytingar á lögum um heilbrigðisstarfsmenn. Eins og fram kom í máli hv. formanns velferðarnefndar, hv. þm. Álfheiðar Ingadóttur, er þetta í þriðja sinn sem þetta frumvarp fer hér í gegn og sjaldan komist jafnlangt og nú. Það er tímabært að hv. Alþingi afgreiði þetta frumvarp sem lög frá Alþingi.

Ég tek undir með hv. formanni velferðarnefndar, vel hefur tekist til í nefndinni um samvinnu í þessu máli sem og í heilbrigðisnefnd á síðasta þingi áður en tvær nefndir voru sameinaðar undir heiti velferðarnefndar á síðasta haustþingi. Það hefur verið unnið að þessu af fjölmörgum þingmönnum, margir verið kallaðir til og samhljómur hefur verið í nefndinni um flestalla þætti.

Ég mæli fyrir breytingartillögu sem við hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir gerum við 13. gr. sem er í III. kafla um réttindi og skyldur heilbrigðisstarfsmanna. Við viljum að í stað stað 1. málsliðar 3. mgr. 13. gr. sem hljóðar svo: „Heilbrigðisstarfsmaður ber, eftir því sem við á, ábyrgð á greiningu og meðferð sjúklinga sem til hans leita“ komi, með leyfi forseta:

„Í stað 1. málsl. 3. mgr. 13. gr. komi tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Læknir ber ábyrgð á læknisfræðilegri greiningu og meðferð sjúklinga sem til hans leita eða hann hefur umsjón með. Aðrir heilbrigðisstarfsmenn bera, eftir því sem við á, ábyrgð á greiningu og meðferð sjúklinga sem til þeirra leita.“

Við viljum skjóta inn tveimur nýjum málsliðum í 13. gr. Að öðru leyti erum við hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir sammála þeim breytingum sem gerðar hafa verið á þessu frumvarpi til laga um heilbrigðisstarfsmenn og væntum þess að hv. þingmenn á Alþingi veiti því brautargengi í atkvæðagreiðslu eftir 3. umr. hér.