141. löggjafarþing — 92. fundur,  8. mars 2013.

lengd þingfundar.

[11:09]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Hér kom upp nýjasti talsmaður ríkisstjórnarinnar, hæstv. utanríkisráðherra. Á síðustu dögum og vikum hefur okkur í stjórnarandstöðunni ekki verið ljóst hverjir fara með forræði í ríkisstjórn, hverjir stýra þeim málum sem hér koma inn í þingið. Það virðast vera hinir ýmsustu talsmenn í hinum ýmsustu málum og allir ætla þeir að koma sínum málum í gegn, jafnvel málum sem eru að sjást í þinginu í fyrsta sinn og eru kannski fyrst og fremst lögð fram sem kosningamál og stendur ekki til að klára. En hér er þó kominn talsmaður ríkisstjórnarinnar, hæstv. utanríkisráðherra sem segir að þau mál sem eru á dagskrá í dag séu ekki öll þau mál, og jafnvel ekki neitt af þeim, sem þurfi að fara í gegn.

Ég held, frú forseti, að mikilvægt sé áður en við setjum á langa kvöldfundi um mál sem enginn veit hver ætlar að fara með í gegn, hvaða talsmaður ríkisstjórnarinnar það er hverju sinni, að ríkisstjórnin komi sér saman um helstu málin. Þá getum (Forseti hringir.) við farið að bjarga verðmætum eins og menn gera til sjós og lands, hæstv. utanríkisráðherra. (Utanrrh.: Ég tek ekki mark á …)

(Forseti (ÁRJ): Forseti minnir þingmenn á að beina orðum til forseta.)