141. löggjafarþing — 92. fundur,  8. mars 2013.

vörugjald og tollalög.

619. mál
[18:01]
Horfa

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Það er engin ástæða til að halda langa ræðu um málið að þessu sinni því að það er mjög einfalt: Þetta er mjög vont mál. Það var lagt upp með að einfalda vörugjaldakerfið sem átti að verða til þess að Íslendingar færu að borða hollari mat. Eftir tiltölulega skamma umfjöllun var öllum ljóst að hin svokölluðu lýðheilsumarkmið næðust ekki. (Gripið fram í: Hvað segirðu?) Að hin svokölluðu lýðheilsumarkmið næðust ekki og sömuleiðis að flókið kerfi væri gert enn flóknara. Ef einhver var ekki viss um að sú fullyrðing stæðist, þ.e. að flókið kerfið yrði gert enn þá flóknara, höfum við staðfestingu hér. Nokkrum dögum eftir að málið var orðið að lögum kom í ljós að það er svo meingallað að taka þarf málið upp aftur. Hæstv. ráðherra hafði ekki hugmynd um hver áhrifin yrðu þegar hann var spurður í umræðunni og það segir meira en mörg orð.

Ég ætla ekki að fara mikið yfir það sem snýr að neyslustýringu. Þó vil ég minnast á að markmiðið næst ekki vegna þess að breytingarnar munu auka sykurneyslu landsmanna á mörgum sviðum þar sem verð lækkar á súkkulaði og karamellum. Markmiðið er að minnka sykurneyslu vegna þess að menn telja, og það er almennt talið, að hún hafi mjög slæmar afleiðingar fyrir heilsuna og þeir hafa áhyggjur af stórauknum offituvanda Vesturlandabúa.

Frumvarpið á að taka á þeim vanda með því að hækka verð á sykruðum vörum og ýta undir að fólk drekki frekar ferskan ávaxtasafa og annað slíkt með því að gera þær vörur ódýrari. Gott og vel. Ég vona að við Íslendingar tökum á þeim málum þó svo ég telji að leiðin sé heilsteypt forvarnastefna eða heilsustefna eins og ég lagði fram sem heilbrigðisráðherra haustið 2008 og hefur ekkert verið gert með eftir að núverandi ríkisstjórn tók við. Þar voru tímasett markmið. Unnið hafði verið með fjölmörgum aðilum, sveitarfélögum, forsvarsmönnum skóla, grunnskóla og leikskóla, frjálsum íþróttasamtökum, félagasamtökum og fleirum.

Virðulegi forseti. Nú vill svo til að ég fór í Hjartavernd í skoðun sem mér finnst að allir ættu að gera og allt gott um það að segja. Ég ræddi málið við einn læknanna þar sem benti mér á að búið væri að rannsaka og kenningar komnar fram um að það sem er hættulegast og valdi offituvandanum sé ekki sykurinn, hann hafi verið hafður fyrir rangri sök, heldur frúktósi. Ég skoðaði að hluta til langan fyrirlestur sem dr. Lustig hélt en hann er helsti forvígismaður þeirra rannsókna og hefur verið að kynna þær. Hann færði fyrir því sterk rök að frúktósinn væri eitur, eins og hann kallaði hann. Hann telur að ef frúktósa sé neytt í of ríkum mæli — sem við nútímamenn höfum gert, fyrir seinni heimsstyrjöldina borðaði hver Bandaríkjamaður 15–20 gr en eftir seinni heimsstyrjöldina er magnið komið upp í 60 gr — geri hann það að verkum að fólk kunni sér ekki hóf, hann slekkur á einhverju í heilanum svo menn vita ekki hvenær þeir hafa borðið sig sadda. Þessi vísindamaður sagði það ekkert hafa að gera með kaloríur heldur fyrst og fremst frúktósa.

Ég veit ekkert hvort dr. Lustig eða aðrir hafa rétt fyrir sér, ég hef ekki hugmynd um það. Það sem ég veit er að ef þeir sem hafa gert þær rannsóknir hafa rétt fyrir sér erum við ekki aðeins að flækja kerfið, gera það mjög illskiljanlegt og eyða endalausum tíma þeirra sem þurfa að vinna með það, heldur erum við líka að valda íslensku þjóðinni verulegum skaða ef við ýtum undir neyslu á honum í meira mæli en nú er.

Röksemdafærslan er einfaldlega að ávaxtasykrinum eða frúktósanum sé alla jafna pakkað inn í trefjar, eins í appelsínum og öðru slíku, og hann sé hafður svona góður og sætur til þess að við borðum trefjarnar. Þegar við erum farin að einangra hann og taka svona mikið út, ekki bara í djúsum og öðru álíka heldur í ýmsum matvælum, hefur það afleiðingar í för með sér.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að halda því fram að ég sé sérfræðingur á því sviði, ég er það ekki. Ég veit ekki hvort dr. Lustig hefur rétt fyrir sér en það sem ég veit hins vegar er að ef svo er munum við ekki ná lýðheilsumarkmiðunum, sem er augljóst, sem er lagt upp með í frumvarpinu og munum þvert á móti flækja kerfið og ógna lýðheilsu landsmanna.

Þetta er ekkert annað en aukin skattheimta sem mun koma fram í hækkuðu vöruverði og í hækkun á lánum landsmanna. Í ofanálag er það einstaklega flókið og gerir kerfi sem er nægur frumskógur fyrir enn þá erfiðara og verra fyrir fólkið í landinu. Það hefði verið skömminni skárra ef stjórnvöld hefðu ekki reynt að skreyta með lýðheilsutali því að það var aldrei markmiðið heldur ætluðu menn að ná sér í auknar tekjur. Ef menn vildu á annað borð fara þá leið væri betra að gera það ekki með því að gera stagbætt, flókið og slæmt kerfi enn þá verra. Það er verið að gera með frumvarpinu. Frumvarpið sem er nú lagt fram og er framhald af frumvarpinu fyrir jól er staðfesting á því sem ég hef margoft sagt í umræðunni, það er verið að gera flókið kerfi enn flóknara.