143. löggjafarþing — 92. fundur,  8. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[22:00]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Helga Hjörvar fyrir ræðuna. Hv. þingmaður spurði áðan í andsvörum við þann sem hér stendur með hvaða hætti ég teldi að hægt væri að breyta frumvarpinu. Nú vil ég fá að heyra sjónarmið hv. þingmanns á því, og hvort hægt væri, að hans mati, að breyta frumvarpinu þannig að það geti raunverulega gagnast þeim heimilum sem mest þurfa á því að halda og hvort hv. þingmaður væri ekki tilbúinn til að aðstoða hv. stjórnarþingmenn við að finna þá leið sem til þess þarf.

Mér heyrist á hv. stjórnarþingmönnum, þrátt fyrir alla orðræðuna sem verið hefur hér í dag, að þeir séu einlægir í vilja sínum til að leiðrétta þennan forsendubrest, en einhverra hluta vegna virðast þeir vera algerlega fastir í að þetta sé eina leiðin þrátt fyrir að hún deili sannarlega peningum til þeirra sem ekki þurfa á því að halda.