143. löggjafarþing — 92. fundur,  9. apr. 2014.

fjarvera forsætisráðherra.

[00:15]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Vegna þessara orða þá er það nú þannig að málið er komið inn í þingið og hafa margir hv. þingmenn (Gripið fram í.)komið hingað, bæði þegar þeir hafa verið í stjórn og í stjórnarandstöðu, og bent á að fulltrúar framkvæmdarvaldsins ættu ekkert sérstaklega að vera að blanda sér í umræðuna. (SSv: … alltaf hreint.) Við getum haft ýmsar skoðanir á því, en hins vegar hefur hæstv. fjármálaráðherra, sem fer með málið, svo sannarlega tekið þátt í umræðunni hér og fylgst með henni.

Ég velti fordæminu fyrir mér, ég ætla ekkert að gera lítið úr því að hæstv. forsætisráðherra hefur ákveðnar skoðanir á þessu máli eins og væntanlega mörgum öðrum, en er þá eðlilegt að hægt sé að kalla á hæstv. forsætisráðherra í öllum málum? Ef það er gert í þessu máli og mönnum finnst það sjálfsagt að taka það upp á fundi þingflokksformanna þá á það auðvitað við um öll mál. Og eftir því sem ég best veit þá hafa núverandi forsætisráðherra, fyrrverandi forsætisráðherra og væntanlega framtíðarforsætisráðherra haft skoðanir á mjög mörgum málum.