143. löggjafarþing — 92. fundur,  9. apr. 2014.

ríkisendurskoðandi og ríkisendurskoðun.

488. mál
[00:30]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að leggjast í löng ræðuhöld (ÖS: Jú.) en mér finnst hins vegar heldur snubbótt að fara bara í andsvar um þetta mikilsverða mál því að við erum að tala um eina mikilvægustu stofnun sem við höfum til að fylgjast með ríkisvaldinu og heyrir undir Alþingi. Það er því af skiljanlegum ástæðum að hæstv. forseti leggur málið fram, og þó að það sé gert á þessum tíma ætla ég samt sem áður að eyða svona fimm eða tíu mínútum í málið.

Ég hafði nú búist við að frumvarpið kæmi fram fyrr á þinginu, ég átta mig ekki alveg á af hverju það kemur núna, hann getur kannski svarað því betur á eftir. Hæstv. forseti sagði að ráðningartími núverandi ríkisendurskoðanda væri að renna út og er því ætlunin að klára þetta á þessu þingi áður en tíminn rennur út. Gerð er breyting á ráðningu ríkisendurskoðanda, sem ég held að sé til bóta, þ.e. að þingið kjósi hann. Ég held að það sé líka til bóta að þetta verði sex ár, þetta voru fimm ár. Ég er alla vega ánægð með það að ráðningartíminn er eitt og hálft kjörtímabil, þannig að þá yrðu kosningar á þingi í millitíðinni, ég held að það sé hið besta mál.

Ég tek hins vegar eftir því, virðulegi forseti, að nefndin sem skipuð var til að undirbúa frumvarpið hafði ekki lagt til að ríkisendurskoðandi væri löggiltur endurskoðandi. Það þekkist ekki í slíkum stofnunum á Norðurlöndum og þekkist heldur ekki í stofnunum í Bretlandi. Ég segi fyrir mig að ég væri fylgjandi því að yfirmaður Ríkisendurskoðunar væri ekki löggiltur endurskoðandi. Í þessu lagafrumvarpi er verið að auka aðeins á hlutverk Ríkisendurskoðunar í stjórnsýsluendurskoðun, sem er náttúrlega allt annað en fjárhagsendurskoðun. Endurskoðendur sem hafa slíka menntun hafa ekkert meira vit á stjórnsýsluendurskoðun en rekstrarfræðingar eða, ég meina, endurskoðendamenntunin nýtist ekkert sérstaklega þar yfir aðra háskólamenntun eins og sagt er, sem kemur að gagni við störfin, held ég að sé oft sagt í auglýsingum.

Hvað varðar stjórnsýsluendurskoðunina held ég að það sé ábyggilega rétt hjá mér að talað er um eftirlit með starfsemi og árangri ríkisaðila. Eftir því sem ég les út úr greinargerðinni með frumvarpinu er ekki bara verið að tala um fjárhagslegan árangur heldur líka hvort stofnunin nái markmiðum sínum. Þetta er mjög viðkvæmt atriði og vandasamt verður fyrir Ríkisendurskoðun nú og í framtíðinni að feta einstigið á milli þess að líta hlutina hlutlægum augum og færa sig inn á hið pólitíska svið sem getur alltaf verið hætta á þegar menn eiga að meta markmið eða árgangur. Það er sem sagt verið að styrkja vægi þessa hlutar í frumvarpinu fyrir utan að það er staðreynd að það hefur styrkst á undanförnum árum. Ég held að núna sé um það bil einn þriðji starfsmanna ríkisendurskoðanda í stjórnsýsluúttektum. Þar hefur aukningin orðið mikil á undanförnum árum, en ekki eins í fjárhagsendurskoðuninni.

Ég set ákveðið spurningarmerki við að setja þá kröfu í lögin að ríkisendurskoðandi sé löggiltur endurskoðandi og tel að það að vera yfirmaður Ríkisendurskoðunar krefjist ekki sérstakrar menntunar í endurskoðun heldur krefst það góðrar menntunar, það krefst reynslu og víðsýni, en endurskoðendamenntunin alls ekki.

Ríkisendurskoðandi verður þá einn af æðstu eða stærstu embættum landsins og þingsins. Núna er að minnsta kosti 401 löggiltur endurskoðandi í Félagi löggiltra endurskoðenda, mega svo sem vera einhverjir fleiri, þar af eru 18 nemar. Þá er potturinn sem við værum að velja úr í þetta mikilsverða embætti 383 manneskjur. Þar af eru 288 karlar. 75% af löggiltum endurskoðendum eru karlar. Ef við tökum pottinn gætu einungis 25% kvenna sótt um.

Nú er ég ekki að segja að það sé aðalatriðið en mér finnst það skipta máli. Mér finnst líka skipta máli að ef löndin í kringum okkur og þau lönd sem við berum okkur saman við telja þetta ekki nauðsynlegt, og líka af því að við erum fá og potturinn er lítill, þá tel ég að við ættum virkilega að líta til þess að hafa þetta eins og þeir sem við lítum almennt til og krefjast ekki þessa skilyrðis.

Síðan má allt gott um þetta segja. Það er gott að opna á upplýsingar þannig að Ríkisendurskoðun falli að einhverju leyti undir upplýsingalögin eftir því sem við á. Ég fagna því atriði sérstaklega sem kemur hér inn að ef skýrslugjöf dregst og skýrsla sem beðið hefur verið um kemur ekki út þá er ríkisendurskoðanda skylt að láta forsætisnefnd vita og greina frá umfangi og töfum. Brotalöm hefur verið á því, sem ég ætla ekki að fara að ræða að þessu sinni en geri það kannski síðar.

Ég fagna því að málið er komið fram og vil leggja áherslu á það atriði sem ég ræddi lengst. Að öðru leyti er ég í nefndinni og það verður ábyggilega farið mjög gaumgæfilega í gegnum þetta.