145. löggjafarþing — 92. fundur,  4. apr. 2016.

upplýsingar og skilgreining á skattaskjólum.

[16:41]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Hér gefur hv. þingmaður það sterklega í skyn að eiginkona mín eða ég, eins og hann sagði líka, hafi tekið sérstaka ákvörðun um að vista þetta félag í þessu landi í einhverjum annarlegum tilgangi, til þess að fela eitthvað. Það hefur komið fram, virðulegur forseti, margoft og verið staðfest að svo er ekki. Það hafa aldrei verið faldar eignir í þessu landi. Þetta er einfaldlega það fyrirkomulag sem sá banki sem kona mín var í viðskiptum við á sínum tíma lagði upp. Og jú, auðvitað hefði ég viljað vera laus við það, virðulegur forseti, eins og menn hefðu viljað vera svo lausir við svo margt sem var almennt stundað hér í aðdraganda efnahagshrunsins. Konan mín hefur eingöngu tapað á því að hafa sett eignir sínar í vörslu með þessum hætti.

Virðulegur forseti. Við skulum hafa það sem sannara reynist. Staðreyndirnar eru þær (Forseti hringir.) að hún hefur aldrei leynt þessum eignum sínum. Hún hefur aldrei hagnast á þessu fyrirkomulagi og ekki skaðað samfélagið á nokkurn hátt, þvert á móti.