145. löggjafarþing — 92. fundur,  4. apr. 2016.

skýringar forsætisráðherra á aflandsfélagi.

[17:26]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. forseta fyrir að hafa tekið munnlegar fyrirspurnir út af dagskrá og forðað þeim stjórnarþingmönnum og ráðherrum sem þar ætluðu að tala frá þeirri skömm sem því hefði fylgt þegar þetta fólk er ekki tilbúið til að koma hér upp og ræða um stöðu mála.

En það er ekki bara þannig að hér séu þúsundir manna og kvenna sem fylla Austurvöll. Það er mótmælt um land allt. Það er verið að mótmæla á Akureyri og á Ísafirði og eflaust fleiri stöðum á þessum tíma. Ég geri ráð fyrir því, hæstv. forseti, að því fólki líði eins og mér eftir afhjúpun Tortóluelítunnar. Ég skammast mín og réttlætiskennd mín hefur verið særð.

Forsætisráðherra leyndi mikilvægum hagsmunum. Hann leyndi kröfum fyrirtækis eiginkonu sinnar á Tortólu í föllnu bankana og hann sagði ósatt um tilkomu eignarhluta síns í þessu fyrirtæki. Herra forseti. Ég fer fram á að hér verði ekki fundað fyrr en vantraust stjórnarandstöðunnar verður á dagskrá þó að ég voni að hæstv. forsætisráðherra hafi sagt af sér fyrir þann tíma.