145. löggjafarþing — 92. fundur,  4. apr. 2016.

skýringar forsætisráðherra á aflandsfélagi.

[17:40]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Í raun er kannski nóg að bera upp eina einfalda spurningu um þetta mál og hún er þessi: Getur það gengið upp að forsætisráðherra í vestrænu ríki, ég tala nú ekki um norrænu velferðarsamfélagi, eigi aflandsfélag í skattaskjóli? Er það samrýmanlegt því að vera forsætisráðherra í ríki sem byggir tilveru sína á því að þeir sem eru aflögufærir greiði með sköttum sínum í þágu samneyslunnar? Mitt svar er nei. Og aflandsfélag forsætisráðherrahjóna er ekkert einangrað fyrirbæri. Það er tengt einum ógeðfelldasta kafla í sögu áranna fyrir hrun þegar arður streymdi frá Íslandi milljörðum saman inn í gervifélög og skúffufélög í skattaskjólum og íslensk stjórnvöld gerðu ekkert í því máli, hafandi tillögur um það frá skattyfirvöldum og sérstökum nefndum. Það var ekki fyrr en ný ríkisstjórn gerði það að einu af sínum forgangsmálum 2009 að stoppa upp í þau göt. Aflandsfélag forsætisráðherrahjónanna verður til á þessum árum (Forseti hringir.) og er hluti af þessum veruleika og tilvist þess ein og sér er nóg til þess að hæstv. forsætisráðherra verður að fara.