149. löggjafarþing — 92. fundur,  10. apr. 2019.

störf þingsins.

[15:35]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Síðustu daga hefur farið fram umræða um fjögur mál sem tengjast þriðja orkupakkanum. Í umræðunni kom margt upplýsandi fram varðandi þessi mál en einnig um orku- og auðlindamál í landinu almennt. Ljóst er að sú umræða hefur vakið með fleirum en mér hugrenningar til að fara með hér í dag.

Ljóst er að gagnrýni á málið hefur verið tekin alvarlega af ríkisstjórn og unnið með hana. Það er því lögð til innleiðing með þeim lagalega fyrirvara að Ísland muni ekki tengjast innri raforkumarkaði Evrópska efnahagssvæðisins nema með samþykki Alþingis og að undangenginni sérstakri skoðun á því hvort reglurnar standist ákvæði stjórnarskrár. Þangað til það gerist — ef það þá nokkurn tímann gerist — að sæstrengur verði lagður, hafa reglurnar ekkert gildi og enga þýðingu hér á landi.

Nú eru málin hjá nefndum Alþingis að lokinni umræðunni og þar fer mikilvæg vinna fram næstu vikur við að meta hvort framsetning málanna, leiðin sem hér er lögð til, sú sem er lögð fyrir Alþingi, sé besta leiðin eða hvort aðrar leiðir séu raunverulega færar, og ef svo er, hvort þær séu þá betri eða verri en sú lausn sem fyrir liggur.

Í umræðunni afhjúpaðist líka vel sú lenska margra stjórnmálamanna að vísa í EES um allt sem afvega fer í stefnumörkun og lagasetningu varðandi orku- og auðlindamál á Íslandi. Kannski ættum við að líta okkur nær og taka umræðu um auðlindir og raforku, óháða þessum samningi. Við getum staðið okkur svo miklu betur í stefnumótun og mótun lagaumhverfis um auðlindir hér á landi. Við þurfum að tryggja eignarhald landsmanna á auðlindum á landi, hvort sem það eru auðlindir sem nýtast til raforkuframleiðslu eða aðrar auðlindir. Við þurfum að tryggja örugga afhendingu raforku um land allt. Við þurfum að jafna raforkukostnað um land allt og fleira kæmi eflaust upp ef við ræddum þessi auðlindamál (Forseti hringir.) oftar og betur. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)