150. löggjafarþing — 92. fundur,  22. apr. 2020.

nefnd til að fylgjast með upplýsingaóreiðu.

[10:39]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Hv. þingmaður dregur þá ályktun hér að það að upplýsingaóreiða sé til umfjöllunar á vettvangi þjóðaröryggisráðs og að við kortleggjum stöðu þeirra mála á Íslandi jafngildi því að við ætlum að fara að ritstýra umræðunni, ritstýra fjölmiðlum. (Gripið fram í.) Auðvitað er það ekki svo. Ef við horfum til þess hvað aðrar þjóðir hafa verið að gera sem standa okkur nærri, til að mynda Norðurlandaþjóðir, þá hefur verið lagst í markvissa fræðslu um upplýsingaúrræði. Ég er alveg viss um að við hv. þingmaður erum ekki ósammála um það að breytt umhverfi, tækniumhverfi samfélagsmiðla, hefur gert það að verkum að upplýsingamiðlun er með allt öðrum hætti en áður. Er ég þar með að segja að það hafi ekki verið rangar fréttir áður? Nei, auðvitað ekki. Auðvitað voru þær rangar en þær breiðast með allt öðrum hætti núna á öldum netsins en áður var og vafalaust er fræðsla þörf um þetta ef við metum það svo að umfang þessa máls sé mikið á Íslandi, en það hefur ekki verið kortlagt. Það er ábyrgðarhluti.