150. löggjafarþing — 92. fundur,  22. apr. 2020.

alþjóðasamvinna.

[11:03]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Ég held að allir geri sér grein fyrir mikilvægi þess að viðhöfð sé mjög rík og öflug alþjóðasamvinna í núverandi ástandi. Auðvitað er það að einhverju leyti erfitt í ljósi aðstæðna en þeim mun meiri ástæða til að reyna. Það hefur því verið svolítið leiðinlegt að sjá ekki miklu meiri forystu af hálfu Íslands á alþjóðavettvangi í ljósi svo þess hversu vel við glímum við aðstæður.

Mig langar að spyrja hæstv. utanríkisráðherra út í nokkra hluti í þeirri von að hann geti gefið mér aðeins betri mynd af stöðu mála og vonandi hrifið mig með sér í því að við séum í rauninni að gera ýmislegt. Fyrsta atriðið snýr að því að í alþjóðaviðskiptasamningum, fríverslunarsamningum, eru mjög oft ákvæði um að jafna út tæknilega staðla, t.d. varðandi hreinlæti á matvöru. Nú erum við í því ástandi að það eru allir undir sólinni að nota mismunandi sóttvarnanálganir og kljást við vandamálið hver með sínu lagi. Á sama tíma horfum við á ferðaþjónustu úti um allan heim hrynja. Við horfum á alþjóðaviðskipti úti um allan heim hrynja, um 35% að mati Sameinuðu þjóðanna. Væri ekki ástæða til að leitast eftir því að gera einhvers konar samkomulag við þau lönd sem eru með sambærilegar sóttvarnaaðgerðir og við um að reyna að opna á og jafnvel stuðla að frekari samgöngum og álíka þar á milli?

Það mætti líka spyrja, af því að geta Íslendinga til að taka sýni er svo mikil, hvort ekki mætti hreinlega prófa alla sem koma til landsins. Við höfum töluvert mikla getu til þess.

Og þriðja atriðið: Hvað hefur utanríkisráðherra tekið sér fyrir hendur að undanförnu? Það væri gaman að fá heildrænt yfirlit.