150. löggjafarþing — 92. fundur,  22. apr. 2020.

aðgerðir í þágu atvinnulausra vegna COVID-19 heimsfaraldursins.

723. mál
[21:47]
Horfa

Flm. (Logi Einarsson) (Sf):

Herra forseti. Ég mæli fyrir þingsályktunartillögu þingflokks Samfylkingarinnar um aðgerðir í þágu atvinnulausra vegna Covid-19 heimsfaraldursins. Flutningsmenn tillögu eru allir þingmenn Samfylkingarinnar. Í tillögunni er lagt til að fjármála- og efnahagsráðherra og félags- og barnamálaráðherra hafi forgöngu um að ríkisstjórnin ráðist í aðgerðir í þágu fólks sem missir vinnuna vegna efnahagslegra afleiðinga Covid-19 heimsfaraldursins og til að mæta fyrirsjáanlegum skorti á sumarstörfum. Gerðar verði breytingar á reglugerðum og frumvörp lögð fram á Alþingi í þessum tilgangi eigi síðar en 15. maí 2020. Í aðgerðunum felist a.m.k. eftirfarandi atriði:

1. Grunnatvinnuleysisbætur hækki úr 289.510 kr. í 314.720 kr.

2. Hámarksfjárhæð tekjutengdra atvinnuleysisbóta hækki úr 456.400 kr. í 516.000 kr.

3. Hlutfall tekjutengdra atvinnuleysisbóta af meðaltali heildarlauna hækki tímabundið úr 70% í 100%.

4. Námsmönnum verði tryggður réttur til atvinnuleysisbóta frá 1. júní til 31. ágúst 2020.

Fyrr í dag hefur ögn verið komið inn á þessa tillögu með einum eða öðrum hætti og um hana hafa verið viðruð ólík sjónarmið. Það er auðvitað rétt hjá þeim sem hafa andmælt tilgangi frumvarpsins að auðvitað sé betra að fólk sé í vinnu og að það eigi að vinna að því að skapa atvinnu fyrir alla. Það er algjörlega hárrétt, að því skulum við vinna, en í þeim veruleika sem við lifum í í dag er hér mikið atvinnuleysi og verður næstu mánuðina, því miður, og störfin verða einfaldlega ekki dregin upp úr hatti við þessar aðstæður á næstu dögum. Í dag eru atvinnuleysisbætur of lágar og tugþúsundir landsmanna munu einfaldlega lenda í vandræðum með heimilisbókhaldið á næstunni. Það er mikilvægt, eins og ég kom inn á áðan, að verja fyrirtæki og verja atvinnu fólks en það verður líka að verja almenning fyrir tekjufalli. Við skulum ekki gleyma því að heimilin hafa líka sín föstu gjöld sem þarf að borga án þess að eiga möguleika á brúarlánum, frestun skatta og öðru slíku. Þess vegna er þessi tillaga liður í því að verja kerfið okkar. Það þarf bæði að verja fyrirtækin og fólkið. Þetta eru samverkandi þættir. Reyndar var alda atvinnuleysis byrjuð að ganga yfir landið löngu áður en kórónuveiran lét á sér kræla og nú getum við sagt að hún sé að breytast í eins konar flóðbylgju. Það er áætlað að atvinnuleysi á landsvísu verði um 17% í apríl. Á Suðurnesjum mælist atvinnuleysi þegar um 20% og er viðbúið að það aukist enn frekar.

Í þessu samhengi er mikilvægt að hafa í huga að staða atvinnulausra og fjölskyldna þeirra er sérstaklega viðkvæm þegar atvinnuleysi er mikið og fjöldi fólks eygir litla möguleika á að finna sér nýja vinnu á næstu misserum. Atvinnuleysi eykst iðulega mest hjá láglaunafólki í kreppu og því þarf sérstaklega að huga að þeim hópi. Hlutabótaleiðin er mjög góð aðgerð sem gagnast mörgum og frumvarpið þar sem mælt var fyrir henni tók auðvitað miklum framförum í meðförum þingsins. Það er nauðsynlegt að framlengja það úrræði. Aftur á móti er nauðsynlegt að ráðast í fleiri aðgerðir strax til að koma til móts við fólk sem alfarið missir vinnuna vegna faraldursins og tryggja að fjárhæðir í atvinnuleysistryggingakerfinu séu í takti við launaþróun í landinu.

Í fyrsta lagi verður að hækka grunnatvinnuleysisbæturnar sem ekki hafa fylgt launaþróun undanfarinna missera til að koma til móts við þennan viðkvæma hóp. Eðlilegt er að miða hækkunina við krónutöluhækkun launataxta 1. apríl 2020 fyrir lægstu laun samkvæmt lífskjarasamningnum.

Í öðru lagi verður að tryggja þeim sem missa vinnuna hærri atvinnuleysisbætur á meðan siglt er í gegnum dýpstu hluta efnahagslægðarinnar. Þess vegna leggja flutningsmenn til að hámark tekjutengdra atvinnuleysisbóta verði hækkað í 516.000 kr. í samræmi við þróun meðallauna í landinu. Flutningsmenn benda á að í 3. mgr. 33. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er að finna heimild fyrir ráðherra til að hækka framangreindar bætur með reglugerð í ljósi breyttra þjóðhagsforsendna.

Í þriðja lagi er lagt til að skerðingarregla laga um atvinnuleysistryggingar verði afnumin tímabundið þannig að tekjutengdar atvinnuleysisbætur geti numið meðaltali heildarlauna launamanns enda séu þau undir 516.000 kr. hámarkinu. Á meðan versta krísan varir má þannig koma í veg fyrir skyndilegt og of mikið tekjufall hjá fjölda fólks undir meðallaunum sem missir atvinnu. Samhliða þessari breytingu væri rétt að falla frá þeirri kröfu að grunnatvinnuleysisbætur hafi verið greiddar í hálfan mánuð áður en til tekjutengdra atvinnuleysisbóta kemur og heimila tímabundið greiðslu tekjutengdra atvinnuleysisbóta þegar frá þeim tíma sem launamaður öðlast bótarétt samkvæmt lögunum.

Að lokum teljum við rétt að bregðast við fyrirsjáanlegum vanda námsmanna enda er ljóst að fjöldamargir námsmenn verða án atvinnu yfir sumartímann þrátt fyrir þau ágætu úrræði um sumarstörf sem ríkisstjórnin kynnti í gær. Námsmenn verða af tekjum sem þeir hefðu ella getað reitt sig á. Af þessum sökum er lagt til að námsmönnum verði tryggður réttur til atvinnuleysisbóta frá 1. júní til 31. ágúst.

Þessar tillögur munu hjálpa einstaklingum og fjölskyldum að standa við fjárhagslegar skuldbindingar á borð við leigu og húsnæðislán og önnur gjöld og koma fólki í gegnum versta skaflinn. Eins og ég sagði áðan er nefnilega ekki nóg að mæta tekjufalli fyrirtækja þó að það sé nauðsynlegt. Samfylkingin vill styðja allar góðar aðgerðir til að viðhalda atvinnustiginu í landinu en það þarf sem sagt að verja heimilin fyrir tekjufalli líka.

Herra forseti. Leiðarstef í öllum aðgerðum stjórnvalda í þessari krísu verður að vera að vernda viðkvæma hópa. Annars er einfaldlega hætta á því að þegar við höfum unnið bug á þessari veiru hafi fátækt og ójöfnuður aukist í samfélaginu og til þess megum við ekki hugsa. Ég vona þess vegna að þingheimur taki vel í þessa tillögu. Allir hljóta a.m.k. að geta tekið undir að það er nauðsynlegt að styðja þennan hóp. Þess vegna legg ég til að þessari umræðu lokinni að málinu verði vísað til velferðarnefndar og að það fái þar góða umfjöllun.