151. löggjafarþing — 92. fundur,  10. maí 2021.

umferðarlög.

280. mál
[14:13]
Horfa

Frsm. um.- og samgn. (Vilhjálmur Árnason) (S):

Virðulegur forseti. Við fengum þetta mál til okkar í umhverfis- og samgöngunefnd á milli 2. og 3. umr. vegna þess sem var óútfært með trúnaðarlækni Samgöngustofu. Eftir að hafa farið yfir málið, í samráði við ráðuneytið og Samgöngustofu, varð það úr að við leggjum til að færa framkvæmdina að því sem var áður, þ.e. að leita þurfi til læknis en ekki trúnaðarlæknis Samgöngustofu við viss atvik í umferðinni eða þegar grunur er um að heilsan leyfi ekki akstur. Því er um leið beint til ráðuneytisins að kanna það, með sýslumönnum og lögreglustjórum um landið, hvort þessi framkvæmd sé sú skásta eða hvort hægt sé að finna aðra leið. Upphaflega var gert ráð fyrir því að trúnaðarlæknir yrði á Samgöngustofu en það gekk ekki að fá einhvern ákveðinn trúnaðarlækni á hverjum stað fyrir sig. Við færum okkur því yfir í þetta fyrirkomulag og vonum að það gangi upp. Annað sem var rætt og ákveðið að gera ekki breytingar á var varðandi hámarkshraðann, af hverju hækka ætti hann úr 10 upp í 15. Það var umræða sem við höfðum tekið áður og tókum ekki frekar á núna. Svo var rætt um óljósar sektargreiðslur og annað slíkt. Farið var yfir það í nefndinni að vissar skýringar komu á því að núna þegar aukin hjólaumferð væri og aukin notkun á hjólastígum og annað þyrfti að vera til sektarheimild gæti fólk bersýnilega ekki varúðar þar og hjóli t.d. á göngustígum sem eru sérstaklega merktir fyrir gangandi, sé að hjóla þar sem gangandi vegfarendur geta ekki vikið og alls kyns svona bersýnilega augljós atriði. Ég legg til að við klárum þetta mál núna og þá er það bara þessi breyting hvað varðar lækninn, ekki er talað um að það þurfi mat trúnaðarlæknis heldur eingöngu mat læknis, sem er hin raunverulega breyting.