Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 92. fundur,  16. júní 2022.

vistmorð.

483. mál
[00:48]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Það gerist ekki oft á þessum síðustu dögum þingvetrar, þegar allar taugar eru þandar, að nefnd fái nýtt og jafnvel svolítið framandi mál í fangið og sé sammála um það. En það gerðist einmitt í þessu máli. Öll allsherjar- og menntamálanefnd er sammála um að það sé mikilvægt að Ísland leggi sitt af mörkum í umræðunni um vistmorð á heimsvísu. Það eina sem meiri hluta og minni hluta greinir á um er aðferðin til að ná því fram. Mér finnst meiri hlutinn vera óþarflega varkár — ég ætla bara að segja það hreint út — og vilja greina allt í ræmur áður en haldið er af stað. Minni hlutinn segir: Með því að samþykkja þessa tillögu er ríkisstjórninni einmitt falið að greina hlutina og setja allt af stað. Mér finnst minni hlutinn vera það sem við ættum að standa á bak við og ég hvet þingheim (Forseti hringir.) til að vera aðeins djarfari en meiri hluti allsherjar- og menntamálanefndar vegna þess að þetta er vegferð sem við munum leggja af stað í. Við getum ákveðið í dag að gera það aðeins fyrr en með þessum biðleik (Forseti hringir.) að vísa þessu aftur til ríkisstjórnarinnar. Við þurfum ekki alltaf þessa biðleiki.