Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 92. fundur,  30. mars 2023.

landbúnaðarstefna til ársins 2040.

914. mál
[15:31]
Horfa

matvælaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka kærlega fyrir góða umræðu og vil drepa á nokkrum þeim atriðum sem komu fram í umræðunni. Í fyrsta lagi mál sem lutu að náttúruverndarsjónarmiðum og komu fram hér í máli eins hv. þingmanns. Ég árétta það, af því að ég vísaði áðan í samskipti við kollega mína víða um heim og ekki síst í Evrópu, að þetta er eitt af því sem er að fara sífellt ofar á dagskrá matvælaframleiðslunnar, ekki bara landbúnaðarins heldur almennt, þ.e. sambúðin við náttúruna og að efla matvælaframleiðslu án þess að ganga á líffræðilega fjölbreytni. Þetta er í raun og veru vaxandi nálgun sem ég tel að við séum að halda til haga hérna í kaflanum um líffræðilega fjölbreytni þar sem talað er sérstaklega um náttúruverndarsjónarmiðin með vísindi og vistkerfisnálgun að leiðarljósi og svo í 10. kafla er líka talað um umhverfis- og náttúruvernd í tengslum við fjölbreytni í ræktun, þannig að þessum sjónarmiðum er a.m.k. ætlað að skipa ríkan sess hér.

Ég vil líka nefna sérstaklega neytendur og þetta sterka samband bænda og neytenda og ég er svo hjartanlega sammála því að við þurfum að draga þessa umræðu meira fram í dagsljósið og þá með þeim hætti að hagsmunir bænda og neytenda fari saman. Í 7. kaflanum er sérstaklega fjallað um neytendur og það má vel vera að það megi hnykkja enn betur á þessum tengslum. Sjálf hef ég gjarnan vakið máls á þessu með þeim hætti að segja sem svo: Þú getur verið í sambandi við lækni, prest, lögfræðing eða hvað sem það er einhvern tímann í lífinu, einstöku sinnum eða þegar þú þarft o.s.frv., en í raun og veru erum við í samskiptum við bændur oft á hverjum einasta degi. Við byrjum bara á því að setja súrmjólkina á diskinn og hafrana út á eða rúsínurnar eða hvað það er sem við gerum og búa til kaffið. Við erum í samskiptum við innlenda bændur, við erum í samskiptum við kaffibændur, við erum í samskiptum við appelsínubændur, við erum í samskiptum við kartöflubændur og landeldisbændur jafnvel og svo auðvitað sjávarútveginn eftir því sem deginum vindur fram. En aldrei líður sá dagur að við séum ekki í samskiptum við bændur með einhverju móti. Og til þess að auka á sjálfbærnina, styrkja hringrásarhagkerfið, draga úr kolefnisspori, þá er það betra eftir því sem hærra hlutfall af þessum samskiptum er samskipti við innlenda bændur. Það er bara vegna kolefnissporsins. En þarna erum við líka að leggja áherslu á það sem hv. þingmaður og fleiri töluðu hér um, mikilvægi þess að við sjáum hvaðan varan kemur og að við sjáum kolefnissporið og sjáum upprunann. Þetta verður vaxandi, bæði vaxandi krafa og vaxandi umræða í samfélaginu.

Hér var líka rætt sérstaklega um raforkukostnað við garðyrkju. Þetta er mál sem hefur sífellt og endurtekið verið drepið á og um þetta er búið með tilteknum hætti varðandi flutningskostnað raforku í búvörusamningum þar sem gert er ráð fyrir beingreiðslum til garðyrkjubænda úr tilteknum potti og er allt að 95% af þeim kostnaði. Það má sannarlega skoða þetta enn þá frekar. Hér í 10. kafla er talað um fyrirkomulag stuðnings við landbúnað og ég held að það sé sérdeilis mikilvægt og kjarni málsins að okkur lánist hér við afgreiðslu þingsins að orða þennan kafla með þeim hætti að hann rúmi sem flest pólitísk sjónarmið, þ.e. að við höfum ekki skilninginn á þessum kafla svo þröngan að hann útiloki ákveðinn skilning. Aðalatriðið er að við vitum það að til að tryggja fæðuöryggi, hringrásarhagkerfið og halda áfram öflugum landbúnaði í samfélaginu þá þurfum við samfélagslegan stuðning við greinina. Við þurfum að gera það og mér finnst það skipta mjög miklu máli.

Hér voru nefnd stór og öflug býli víða um land og af því að það rímar einkar vel þá vil ég nefna sérstaklega þann mikla sóknarhug sem ég finn hjá kornbændum og það að við getum núna kynnt til sögunnar í nýrri fjármálaáætlun að við ætlum að leggja til fjármagn fyrir utan búvörusamninga til að efla bæði rannsóknir og undirbúning og stofna síðan sjóð til að ýta undir frumframleiðslu í kornrækt sem við höfum allar forsendur til þess að gera mjög vel og geta í raun og veru brauðfætt Íslendinga eða landsmenn hér í beinum skilningi auk þess sem við getum þá staðið straum af þeirri þörf sem sannarlega er fyrir hendi varðandi korn til kjötframleiðslu o.s.frv. Þarna eru tækifæri. Þarna er mjög mikill spenningur hjá bændum. Þarna er tækifæri líka til að draga úr kolefnislosun, hvort sem er í flutningi eða í neyslunni sem slíkri ef við gætum náð að auka og færa neysluna meira inn á þessar brautir, vegna þess að við vitum að það er að verða í samfélaginu og í samfélögum heimsins áherslubreytingar í því hvað neytendur framtíðar vilja frekar á sinn disk heldur en við. Við þurfum að tryggja að landbúnaðurinn sé á hverjum tíma að tala við þessar nýju kynslóðir. Það gerum við m.a. með því að gefa í í möguleikum kornræktarinnar til að skapa sér stoðkerfi á sínum eigin forsendum. Þá erum við ekki að tala um einhvers konar kornmiðstöðvar á vegum hins opinbera eða eitthvað slíkt heldur samlög sem verða til á þeim stöðum þar sem þeim er best fyrir komið og að stuðningur sé fyrir hendi til að koma greininni af stað. Þar með værum við komin með forsendur fyrir eitthvað sem við gætum kannski kallað annars stigs framleiðslu eða fullvinnslu eða eitthvað slíkt. Þessi hugsun rúmast einkar vel í þessum drögum að landbúnaðarstefnu, en af því að ég var hvött til að taka til hendinni með einstakar áherslur, hvort sem það er orðalag eða áherslur varðandi náttúruvernd, neytendaáherslur eða annað, þá er svo komið núna í þessu máli að það fer frá mér og mínu ráðuneyti og er komið til meðferðar hjá hv. atvinnuveganefnd.

Ég vil árétta þakkir mínar fyrir þessa umræðu sem hér hefur farið fram og þakka ekki síst mínum góðu kollegum sem búa að því að vera bæði bændur og þingmenn. Það er einkar heppileg samsetning akkúrat í þessari umræðu. En kjarni málsins er sá að í þessari þingsályktunartillögu sé ég fyrir mér að við getum rammað inn landbúnað, íslenskan landbúnað, sem er í sókn en ekki vörn, hann er í sókn vegna þess að hann hefur allar forsendur til þess.