Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 92. fundur,  30. mars 2023.

matvælastefna til ársins 2040.

915. mál
[15:40]
Horfa

matvælaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Í beinu framhaldi af umræðu hér um landbúnaðarstefnu mæli ég hér fyrir þingsályktunartillögu á þskj. 1431, mál nr. 915, um matvælastefnu fyrir Ísland. Þessari stefnu er ætlað að gilda til ársins 2040 og byggir að nokkru leyti á eldri stefnumótun, svo sem matvælastefnunni Matarauðlindin Ísland og aðgerðaáætlun sem henni var tengd. Ég tel að um langtímastefnumótun í eins mikilvægum málaflokki og matvælum sé nauðsynlegt að fjalla hér á vettvangi Alþingis. Stefnunni er í raun og veru ætlað að vera svokölluð regnhlífarstefna, þ.e. stefna sem nær yfir alla stefnumótun á sviði matvælaráðuneytisins. Slík stefna stuðlar að því að öll áætlanagerð og stefnumótun á þessu sviði verði samhæfð og tillagan sem hér liggur fyrir er samin í matvælaráðuneytinu.

Fyrir þjóð sem reiðir sig á útflutning matvæla í jafn ríkum mæli og Ísland er mjög mikilvægt að þessi markmið séu rétt stillt. Framleiðsla matvæla varðar samfélagið allt og stefnunni er ætlað að skapa sterkar stoðir fyrir innlenda matvælaframleiðslu til framtíðar til hagsbóta fyrir samfélagið í heild. Öll stefnumótun miðar að því að styrkja stoðir fæðukerfis íslensks samfélags með fjölþættum hætti. Hér er sannarlega gott aðgengi að hreinu vatni og endurnýjanlegri orku og hreinleiki afurða í sérflokki. Þá eru hér við land auðug fiskimið, gnótt af ræktarlandi ásamt því að íslenskir firðir hafa reynst ágætlega til fiskeldis. Ísland er sjálfu sér nægt um nærri 100% af framboði sjávarfangs innan lands af þeim tegundum sem veiddar eru á Íslandsmiðum. Í heildina eru þó 98% af sjávarfangi sem hér fellur til flutt á erlenda markaði og því má sannarlega segja að landið sé mjög stór nettóútflytjandi á matvælum í heild og fiskútflutningur stendur undir fjórðungi okkar útflutningstekna í heild af vörum og þjónustu.

Hér innan lands stendur búfjárrækt fyrir um 90% af framboði kjöts, 99% af framboði mjólkurvara og 96% af framboði eggja. Hins vegar sér garðyrkja þjóðinni aðeins fyrir um 43% af framboði grænmetis og kornrækt, sem hér var nefnd undir fyrri dagskrárlið, stendur aðeins undir 1% af framboði korns til manneldis. Þetta þarf að skoða sérstaklega með það í huga að efla grænmetis- og kornrækt í landinu og ég hef getið þess áður en vil gera það líka hér undir þessum dagskrárlið að í nýútkominni fjármálaáætlun er fjallað um þau markvissu skref sem við hyggjumst stíga á næstu árum til að efla kornrækt.

Það er mikilvægt að hafa í huga að auka fæðuöryggi með sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda, aðferðum hringrásarkerfisins, enda viðhöldum við þannig sterkum samfélögum um land allt og framþróun í takt við þarfir neytenda. Mótun matvælastefnunnar sem þessi tillaga byggir á er partur af heildarstefnumótun innan matvælaráðuneytisins. Lögð er áhersla á sjálfbærni matvælaframleiðslu, þar sem horft er til umhverfisáhrifa og hringrásarhagkerfisins; samfélag þar sem horft er til byggðamála og jafnréttis, þar sem fæðuöryggi í víðum skilningi sé tryggt og að öruggt framboð sé af fæðu í landinu; matvælaöryggi, þar sem horft er til þess að þau matvæli sem í boði eru séu örugg til neyslu og heilnæm; þarfir neytenda, þar sem horft er til ímyndar og orðspors Íslands og neytendavitundar og neytendahegðunar; og síðast en ekki síst er horft til framtíðar þar sem horft er til þess sérstaklega hvaða rannsóknir og nýsköpun þurfa að eiga sér stað til að takast á við áskoranir framtíðarinnar og þar með hvaða menntun matvælaframleiðendur framtíðar þurfa að hafa og hafa aðgang að.

Þessi þingsályktunartillaga hér byggir á fyrrnefndu skjali en þó hefur verið tekið mið af allri annarri stefnumótun á málefnasviðinu, m.a. þeirri sem hér var rædd fyrr á dagskránni um landbúnað. Ég vil fyrst nefna stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Þá vil ég nefna að í febrúar 2022, þegar matvælaráðuneytið var í raun sett á laggirnar, kynnti ég áherslur og verklag við stefnumótun á sviði matvæla og þá var tillögum og greinargerð Landbúnaðarháskóla Íslands um aðgerðir til að bæta fæðuöryggi skilað til ráðuneytisins í apríl sama ár. Land og líf, landgræðsluáætlun og landsáætlun í skógrækt til ársins 2031 var birt í ágúst 2022. Þingsályktunartillagan var líka unnin með hliðsjón af mínum áherslum sem og nýs ráðuneytis eftir að það tók til starfa 1. febrúar 2022.

Heimsfaraldur kórónuveiru og innrás Rússlands í Úkraínu hafa líka breytt ýmsum forsendum sem áður voru taldar sjálfgefnar. Í þingsályktunartillögunni er því m.a. aukin áhersla lögð á fæðuöryggi, loftslagsmál og hringrásarhagkerfið. Jafnframt mun þessi stefna vera leiðarstef fyrir komandi stefnumótun á sviði fiskeldis og sjávarútvegs en sú vinna er nú þegar hafin.

Drögin að þingsályktunartillögunni voru kynnt í þessu skjali hér á matvælaþingi í nóvember 2022 þar sem meginkaflarnir voru til umræðu í pallborðum og drögin voru rýnd með gagnrýnum augum. Í febrúar síðastliðnum var stefnan birt í opnu samráði í samráðsgátt stjórnvalda og bárust 25 umsagnir frá ýmsum stofnunum, hagsmunasamtökum, sveitarfélögum og einstaklingum. Margir umsagnaraðilar fögnuðu fram kominni tillögu að matvælastefnu og það voru gerðar ýmsar breytingartillögur að stefnunni sem tekið var tillit til eins og hægt var. Fjöldi athugasemda sneri að því hvernig best sé að ná markmiðum stefnunnar en slíkt bíður þeirrar aðgerðaáætlunar sem kveðið er á um í stefnunni. Um þá áætlun verður haft sérstakt samráð þegar þar að kemur. Enn fremur var brugðist við ýmsum athugasemdum með breytingunum.

Ég vil árétta að þessari stefnu er í raun og veru ætlað það meginhlutverk að ná utan um stefnumótun í landbúnaði, sjávarútvegi og fiskeldi, eða lagareldi í víðum skilningi. Í fyrsta lagi erum við þar með komin með stefnu um sjálfbærni matvælaframleiðslu þar sem við orðum það með skýrum hætti hvað við eigum við, óháð því hver framleiðslan er.

Í öðru lagi ræðum við hér sérstaklega samfélagslegu þættina sem lúta að uppbyggingu innviða um allt land, um skilvirka stjórnsýslu, um endurnýjanlega orku sem er nauðsynleg, um skýran lagaramma, eftirlit, starfsumhverfi o.s.frv.

Í þriðja lagi ræðum við fæðuöryggið þannig að við séum að horfa á fæðuöryggi í víðari skilningi en við erum kannski vön þar sem við erum að hugsa um öll fæðukerfin, þ.e. alveg frá upphafi til enda, og séum að horfa á þessa lífrænu ferla og hvernig þeir taka af stað inni í matvælaframleiðslunni og hvernig við getum komið þeim inn í ferilinn aftur, hvernig við getum stutt við nýsköpun í matvælaframleiðslu, aukið sjálfbærni hér innan lands, dregið úr losun framleiðslunnar o.s.frv. og mögulega geta þessar greinar matvælaframleiðslunnar líka spilað saman í ríkari mæli en þær gera nú.

Í fjórða lagi ræðum við sérstaklega matvælaöryggið sem er sérstaklega mikilvægt fyrir orðspor, fyrir markaðssetningu og einfaldlega fyrir heilsu og líf íbúanna, að þau matvæli sem eru framleidd hér á landi og þau sem eru aðflutt séu örugg, séu heilnæm, og jafnframt að hugmyndafræði einnar heilsu verði höfð að leiðarljósi þar sem vísað er til dýraheilbrigðis í einu og öllu.

Neytendur eru hér nefndir, að þeir séu vel upplýstir o.s.frv., að það sé lögð áhersla á sem jafnast aðgengi að matvælum. Og loks sá kafli sem er ekki síst mikilvægur sem er um rannsóknir, nýsköpun og menntun því að við höfum orðið þess áskynja og vitum að við þurfum miklu heildstæðari sýn á menntun varðandi matvælaframleiðslu, hvort sem það er á framhaldsskólastigi, háskólastigi eða í rannsóknum og vísindum þar sem við getum skipað okkur meðal fremstu þjóða. Við þurfum auðvitað að hlúa að grunnrannsóknum og vöktun. Við þurfum að þekkja vel til lifandi auðlinda og matvæla. Við þurfum að vita hvernig mannauður framtíðarinnar þarf að vera, eins vel og við getum, og styðja við uppbyggingu þess mannauðs eins og nokkur kostur er. Þetta er líka hluti af því að ýta undir nýliðun og það að greinarnar séu spennandi fyrir ungt fólk, að þetta haldist allt saman í hendur.

Ég nefndi áðan að drögin voru kynnt á matvælaþingi í nóvember þar sem stefnan var rædd og þar er loks í þingsályktunartillögunni kveðið á um að það verði gerðar aðgerðaáætlanir til fimm ára í senn til að hrinda þessari stefnu í framkvæmd og þetta er auðvitað hluti af því að skapa það orðspor sem við eigum sannarlega inni sem matvælaframleiðsluland í fremstu röð.

Virðulegi forseti. Ég vil að öðru leyti vísa til greinargerðarinnar sem fylgir tillögunni þar sem ítarlega er fjallað um og gerð grein fyrir hennar efni og að lokinni þessari umræðu vil ég leggja til að tillögunni verði vísað til 2. umr. og hv. atvinnuveganefndar.