131. löggjafarþing — 92. fundur,  17. mars 2005.

Staða íslensks skipasmíðaiðnaðar.

[13:31]

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Ég ætla að ræða stöðu skipasmíðaiðnaðarins. Hæstv. iðnaðarráðherra er mætt en ég hefði gjarnan viljað að bæði hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. dómsmálaráðherra hefðu verið viðstaddir til að geta skýrt sína hlið í umræðunni.

Skipasmíðar og þjónusta við skip eiga sér langa sögu hér á landi og á köflum hefur blómlegur iðnaður dafnað á þessu sviði sem hefur skapað þúsundir starfa í landinu og verið þjóðhagslega mjög ábatasöm atvinnugrein. Nú um langt árabil hefur skipasmíðaiðnaðurinn hins vegar átt í erfiðleikum og nýsmíði stærri skipa að langmestu farið úr landi. Er staðan varðandi meiri háttar viðhald og endurbætur litlu skárri.

Við þingmenn Vinstri grænna höfum á undanförnum þingum vakið athygli á stöðu skipasmíðaiðnaðarins og flutt tillögur um hvernig mætti efla hann og styrkja. Í framhaldi af umræðum í þinginu og úti í samfélaginu var árið 2002 efnt til samstarfsverkefnis iðnaðarráðuneytisins og Samtaka iðnaðarins um að kanna raunveruleg starfsskilyrði skipasmíðaiðnaðarins og úttekt á stöðu greinarinnar og þá voru gerðar tillögur til úrbóta. 2003 skipaði iðnaðarráðherra nefnd til að kanna samkeppnisstöðu íslensks skipasmíðaiðnaðar gagnvart öðrum löndum á Evrópska efnahagssvæðinu. Skýrsla kom út nú í febrúar. Þar er bent á ýmis atriði sem mismuna íslenskum iðnaði, svo sem í endurgreiðslum aðflutningsgjalda og óbeinum niðurgreiðslum í formi þróunarkostnaðar við hátækniiðnað svo að nokkuð sé nefnt. Ekki hefur skort á nefndirnar til að kanna þessi mál og gera tillögur. En hver er svo veruleikinn?

Nýverið bauð Landhelgisgæslan út viðgerð á tveim varðskipum, óskaverkefni fyrir íslenska iðnaðarmenn, rafvirkja og trésmiði. Tilboð bárust m.a. frá tveim íslenskum skipasmíðastöðvum og frá einni pólskri sem bauð 275 millj. kr. í verkið. Slippstöðin á Akureyri var með 13 millj. kr. hærra boð. Ríkiskaup ákváðu að hafna öllum boðunum en gengu til samninga við pólsku skipasmíðastöðina. Kunnugir fullyrða að sá munur, þessar 13 millj., sé bara brot af ferðakostnaðinum við að fara með skipin út. Ekkert var rætt við Slippstöðina þó svo að öllum tilboðum hefði verið hafnað. Áhöld eru um hvort það hafi nokkuð verið skylt að bjóða þetta verkefni út á Evrópska efnahagssvæðinu.

Nú virðist hafa verið samið við pólsku skipasmíðastöðina. Auðvitað vekur þetta hörð viðbrögð. Þetta vekur hörð viðbrögð Samtaka iðnaðarins og landsbyggðarinnar, Akureyrar, þar sem íslenska skipasmíðastöðin, Slippstöðin, er staðsett. Þetta vekur hörð viðbrögð alls staðar í samfélaginu. Og menn velta fyrir sér: Er það t.d. satt að kostnaðaráætlun íslenskra stjórnvalda á þessu verki hafi einungis numið 60–70% af lægsta boði? Getur það verið að íslensk stjórnvöld reikni með launum eins og þau gerast verst við Kárahnjúka og það sé viðmiðunin í launakostnaðinum þegar verið er að áætla hann? Ég krefst þess að birt verði sundurliðun á upphaflegri kostnaðaráætlun Ríkiskaupa og þar með talinn heildarvinnustundafjöldi og áætlaður launakostnaður við verkið til að við sjáum í hverju þessi munur felst. Eða eru það kannski kaup og kjör Kárahnjúkaflokkanna sem nú á að pína inn í íslenskan skipasmíðaiðnað?

Ég geri mér grein fyrir því að útboð nú á viðgerðum á Tý og Ægi snerta beint þrjá ráðherra, hæstv. dómsmálaráðherra sem yfirmann Landhelgisgæslunnar og verkkaupa, hæstv. fjármálaráðherra, yfirmann Ríkiskaupa, og svo hæstv. iðnaðarráðherra sem fer með málefni skipasmíðaiðnaðarins, samkeppnismál og byggðamál. Það væri því æskilegt að þau kæmu hér, hvert og eitt, og svöruðu fyrir sinn þátt í þessu máli, framgang skipasmíðaiðnaðar í landinu og aðkomu þar að.

Eftir klúðrið á viðgerð varðskipanna Ægi og Tý árið 2001 gengu iðnaðarráðuneytið og Samtök iðnaðarins frá sameiginlegri stefnu varðandi opinber innkaup á þessu sviði og ákvæði um að komið skyldi á formlegu samráði skipasmíðaiðnaðarins og viðkomandi stjórnvalda um framkvæmd opinberra útboða. Manni er spurn: Hvað hefur orðið af þessu samráði? Hvernig birtist það við framkvæmd útboðs á þeim skipum sem nú er verið að semja um viðgerð á erlendis? Hvar er það samráð sem þarna var samþykkt af hálfu stjórnvalda og Samtaka iðnaðarins? Maður veltir fyrir sér hvort ráðherra muni beita sér fyrir því að kanna hvort og þá hvers vegna (Forseti hringir.) hagsmunir íslensks skipasmíðaiðnaðar og þar með þjóðarinnar allrar hafi vísvitandi eða af gáleysi (Forseti hringir.) verið fyrir borð bornir í síðustu samningum.