131. löggjafarþing — 92. fundur,  17. mars 2005.

Staða íslensks skipasmíðaiðnaðar.

[13:42]

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Hæstv. iðnaðarráðherra var að tala um að ársverk í skipaiðnaði væru ef ég heyrði rétt fimm hundruð og eitthvað. Ársverk í skipaiðnaði voru á árunum frá 1977–1987 rétt innan við og yfir þúsund á ári. Síðan hefur þessum iðnaði hrakað með þeim ósköpum sem við höfum séð. Hvers vegna er það? Það er vegna þess að menn hafa látið aðrar þjóðir sem keppa við okkur á þessum markaði hafa af okkur verkefnin. Þau hefðu verið til staðar á Íslandi ef við hefðum verið samkeppnisfær með verð — og af hverju erum við það ekki? 1993 komst nefnd á vegum stjórnvalda að þeirri niðurstöðu að Norðmenn greiddu niður skipasmíðaiðnaðinn hjá sér sem svaraði 33% í samkeppni milli landanna um þennan iðnað. Við létum hlutina gerast svona. Hér sögðu menn að við hefðum ekki efni á þessari samkeppni. Halda menn virkilega að Norðmenn séu svo vitlausir að þeir viti ekki hvað þeir eru að gera?

Það var reiknað út á þessum árum að u.þ.b. 40% niðurgreiðslna væru bókstaflega í hag vegna afleiddra starfa og annars slíks sem fylgdi þessum iðnaði. Auðvitað er þetta grunnundirstöðuiðnaður, hátækniiðnaður hér. Stjórnvöld hafa allan tímann brugðist í því að styðja hann. Hann hefur verið á hausnum. Stöðvarnar eru lokaðar. Menn smíða sumarbústaði í þessum stöðvum sem eru í gangi og aðrar hafa farið á höfuðið og eru ekkert í skipasmíði. Það eru örfá (Forseti hringir.) störf í gangi víðast hvar.