131. löggjafarþing — 92. fundur,  17. mars 2005.

Sveitarstjórnarlög.

639. mál
[18:50]

félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður spyr um aðferðafræði sameiningarnefndar við endanlegar tillögur sínar. Það er ekki svo að þar hafi verið lögð stöðluð mælistika á endanlegar tillögur, heldur er fyrst og fremst stuðst við upphaflegar tillögur nefndarinnar en síðan tekið mikið tillit til rökstuddra athugasemda sveitarfélaganna og fulltrúa þeirra við endanlega tillögugerð. Það sést best á því að nefndin hefur breytt tillögum sínum allnokkuð. Gert er ráð fyrir að sveitarfélögin verði 46 en ekki 39 eins og upphaflega var áætlað, eins og fram kom í máli mínu hér fyrr. Ég ítreka að tekið hefur verið ríkt tillit til rökstuddra athugasemda og álita sveitarstjórnanna.

Hvað varðar spurningu um fasteignaskattinn sem fram kom í máli hv. þingmanns, um það með hvaða hætti þessi álagning fari fram, liggur fyrir með því samkomulagi sem náðst hefur í tekjustofnanefnd að þar er áætlað að tekjur sveitarfélaganna vegna álagningar fasteignaskatta á hluta af opinberum byggingum nemi um 600 millj. kr. í upphafi. Eins og ég hef sagt áður og ítrekað í dag verður þarna um nýjan gjaldflokk að ræða, og nákvæm útfærsla hans og álagningarprósentan liggja ekki fyrir. Áætlaðar tekjur vegna þessa í upphafi liggja fyrir og þær eru 600 millj. kr. á ári, hæstv. forseti, þegar til fullra framkvæmda verður komið.