133. löggjafarþing — 92. fundur,  16. mars 2007.

losun gróðurhúsalofttegunda.

641. mál
[21:55]
Hlusta

Frsm. meiri hluta umhvn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að viðurkenna að ég áttaði mig ekki alveg á hvað hv. þingmaður var að fara. Það var ekki nokkur aðili sem hafði áhyggjur af því að við værum ekki að uppfylla þau skilyrði sem við höfum undirgengist með Kyoto-sáttmálanum með frumvarpinu. Í raun var það þannig að þær stofnanir sem eiga að halda utan um þetta eins og Umhverfisstofnun lögðu mjög hart að nefndinni að samþykkja frumvarpið.

Um er að ræða tímabilið 2008–2012. Ef hv. þingmaður er að spyrja þann sem hér stendur hvað muni gerast eftir þann tíma og hver þróunin verður getur sá sem hér stendur eðli málsins samkvæmt ekki svarað því.

Það liggur alveg hreint og klárt fyrir og við þekkjum það að við stöndum betur en aðrar þjóðir þegar kemur að loftslagsmálum og ef menn ætla að ná einhverjum árangri á því sviði verða menn að fara íslensku leiðina. Um það er ekki deilt. Þegar við berum okkur saman við önnur svæði, t.d. Evrópusambandið, er staða okkar sem betur fer góð.

Hins vegar er alveg ljóst að ef menn ætla að ná árangri í loftslagsmálum í heild sinni verða mun fleiri aðilar að koma inn en einungis þær þjóðir sem núna hafa undirskrifað Kyoto-sáttmálann. Jafnvel þó að allt útstreymi frá þeim löndum, ríkjum, sem hafa skrifað undir Kyoto-sáttmálann, það væri skrúfað fyrir allt saman, þá mundi það duga lítt miðað við þær spár sem eru uppi, mjög lítið, varðandi útstreymi gróðurhúsalofttegunda.

Þetta er bara liður í því og nauðsynlegt tæki fyrir þau eftirlitskerfi sem við erum með til þess að hafa stjórn á útstreymismálunum. Út á það gengur frumvarpið.