136. löggjafarþing — 92. fundur,  4. mars 2009.

dagskrá og fyrirkomulag þingfunda.

[12:02]
Horfa

Arnbjörg Sveinsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég vildi fara fram á það við virðulegan forseta að hann boðaði nú þegar til fundar þingflokksformanna og ræddi skipulag þinghalds í dag. Hæstv. forseti kom að máli við mig í gær hér á göngunum og tilkynnti mér það að hann ætlaði að taka á dagskrá málið kosningar til Alþingis og mundi gera það eftir fyrirspurnatíma í dag. Þegar dagskráin birtist í dag er hún þannig að það á að hefja þingfund kl. 12 og samkvæmt skipulagi því sem hér birtist okkur á að boða til nýs fundar kl. hálftvö, sem sagt taka fyrir fyrirspurnir. Það á að ræða málið kosningar til Alþingis, persónukjörið, núna á klukkutíma sem gefur færi á því að framsögumaður málsins nær að mæla fyrir því en önnur sjónarmið fá ekki að komast að hér í samhengi við (Forseti hringir.) þetta mál.

Ég spyr hæstv. forseta hvort ekki sé ráð að ræða við formenn þingflokkanna um það hvernig fyrirkomulag eigi að vera á umræðunni.