141. löggjafarþing — 92. fundur,  8. mars 2013.

tollalög o.fl.

608. mál
[14:00]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér um breytingu á lögum um vörugjald, nr. 97/1987, og tollalögum, nr. 88/2005, með síðari breytingum. Fyrirgefið, ég er með rangt mál, forseti nefndi hér áðan númerin, sem er kannski ekki einkennilegt í ljósi þess að það var verið að breyta dagskránni áðan. Þetta frumvarp snýst um að gefa fyrirtækjum tækifæri á því að fresta greiðslum á vörugjöldum og varðar einnig virðisaukaskatt.

Sambærilegar breytingar hafa verið gerðar áður og ástæðan fyrir því á sínum tíma að slík bráðabirgðaákvæði voru sett var sú að menn þurftu náttúrlega að horfast í augu við að eftir hrun voru um 60% af íslenskum fyrirtækjum tæknilega gjaldþrota, fyrst og fremst vegna þess að mikill fjöldi þeirra hafði tekið gengistryggð lán og við hrun krónunnar urðu skuldirnar langt umfram eignir.

Eitt af þeim úrræðum sem gripið var til var að gefa fyrirtækjum tækifæri á að fresta eða dreifa greiðslum á þessum opinberu gjöldum. Ég hef verið sammála því að rétt hafi verið að gera þetta og er það líka núna.

Við höfum heyrt það í fréttum og samtölum við forráðamenn ríkisstjórnar Vinstri grænna og Samfylkingarinnar að nú sé allt bjartara fram undan, nú séu svo sannarlega tækifærin til staðar og landið farið að rísa á nýjan leik, eins og hæstv. fyrrverandi fjármálaráðherra talaði um í frægum greinabálki í blöðum. En staðreyndir dagsins í dag tala öðru máli. Nú hefur komið í ljós að spár og áætlanir um hagvöxt í fyrra voru nánast eins rangar og þær mögulega gátu verið. Þegar upphafleg spá kom fram, með fjárlagafrumvarpinu, var gert ráð fyrir hagvexti upp á 2,6–2,7%. Það var síðan leiðrétt og hagvaxtarspáin lækkuð en meira að segja sú breyting náði ekki utan um það sem við horfum fram á í dag. Þetta endurspeglast að sjálfsögðu í því að við þurfum enn á ný að framlengja bráðabirgðaákvæði um dreifingu á gjalddögum fyrirtækja.

Það er einfaldlega staðreynd að atvinnulífið hefur ekki tekið við sér eins og það þarf að gera og liggja örugglega margar skýringar þar að baki. Eitt af því sem ég hef til dæmis verið mjög ósátt við er að ekki skyldi strax vera farið í það á skipulegan máta að vinna með fyrirtækjum í fjárhagslegri endurskipulagningu þeirra, að það skyldi taka mjög langan tíma fyrir stjórnvöld að horfast í augu við hversu stór vandinn væri og hversu mikilvægt væri að hjálpa fyrirtækjum í greiðsluerfiðleikum og það þyrfti að gera skipulega, það væri ekki hægt að treysta fyrst og fremst fjármálafyrirtækjunum fyrir því verkefni.

Sú tillaga sem ég hef lagt fram hvað oftast frá því að ég tók sæti á Alþingi er um ráðgjafarstofu fyrirtækja í greiðsluerfiðleikum. Mér reiknast svo til, virðulegi forseti, að ég sé búin að leggja hana fram sex sinnum. Þessi hugmynd kviknaði í raun og veru fyrir hrun. Ég hafði starfað sem atvinnuráðgjafi og ég hafði líka starfað hjá fyrirtæki sem fór í gegnum greiðsluerfiðleika og gjaldþrot. Sú reynsla kenndi mér að við verðum ekki bara að hvetja einstaklinga til að stofna fyrirtæki með alls konar námskeiðum og ráðgjöf heldur þurfum við líka að horfast í augu við að sum fyrirtæki sem verða til deyja eða hætta rekstri. Kostnaður samfélagsins og kostnaður einstaklinga, kostnaður birgja og allra þeirra sem koma nálægt þessum fyrirtækjum getur verið mjög mikill. Með því að veita fyrirtækjaeigendum ráðgjöf og upplýsingar um viðvörunarmerki sem koma upp í rekstri er hægt að draga mjög úr þeim kostnaði.

Ef menn hefðu samþykkt þessa tillögu eða þáverandi iðnaðarráðherra eða núverandi atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra hefði gert hana að sinni hefði maður talið að mjög skynsamlegt, sem dæmi, að fyrirtæki sem hefðu óskað eftir dreifingu á gjalddögum og nýtt sér það mundu fá ábendingar um að gott væri að leita til ráðgjafarstofu fyrir fyrirtæki í greiðsluerfiðleikum. Þá er hægt að fara í gegnum það hvort einhver viðvörunarmerki eru í rekstrinum sem hægt er að hjálpa mönnum með eða jafnvel, sem getur í sumum tilvikum verið betra, að ráðleggja viðkomandi fyrirtækjum að hætta einfaldlega rekstri áður en kostnaðurinn verður enn meiri og áður en fyrirtækin fara í þrot.

Ég hafði meira að segja náð þeim árangri með tillöguna að hún náðist í eitt skipti út úr nefnd og hafði þá bent á leið til þess að fjármagna hana. Þegar fyrirtæki eru stofnuð er tekið ákveðið gjald fyrir það og það hefði verið möguleiki á að hækka það gjald og nýta það til að fjármagna rekstur ráðgjafarstofunnar.

Ég sá líka fyrir mér að hún hefði getað fallið mjög vel að starfsemi Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands þar sem þegar er veitt ráðgjöf auk þess sem ábendingar komu fram um að þetta gæti líka hentað ágætlega starfsemi atvinnuþróunarfélaganna sem starfa hringinn í kringum landið. Byggðastofnun benti líka á í umsögn um málið að þeir hefðu mjög mikla reynslu af því að aðstoða fyrirtæki sem höfðu lent í rekstrarörðugleikum.

Ég tel því að ekki hafi verið nóg að gera eins og hér er gert, að bjóða upp á fresti og ýta málinu á undan sér, heldur hefðu menn átt að horfa til þess að þarna væri í raun og veru tækifæri til að gera hlutina betur og aðstoða menn betur við reksturinn.

Önnur hugmynd sem hefur verið rædd hvað skattamálin varðar í efnahags- og viðskiptanefnd er um aukna ráðgjöf. Ég hef bent á að í staðinn fyrir að við séum sífellt að hækka sektir og viðurlög í lögum, t.d. við því að skila seint, væri eðlilegt samhliða því að gera aukna kröfu um að forráðamenn fyrirtækja sætu námskeið þannig að ekki væri hægt að segja að fyrirtækin hefðu ekki fengið þær upplýsingar sem þau þyrftu um kröfur hins opinbera til fyrirtækjareksturs. Þau ættu að sama skapi auðveldara með að átta sig á þeim merkjum sem geta komið upp í rekstri þegar fyrirtæki lendir í örðugleikum.

Hugmyndin um ráðgjafarstofuna á sér hliðstæður, eins og kannski margt í okkar lögum, og ég rakst á sambærileg fyrirbæri eða stofnanir innan Evrópusambandsins. Þar var einmitt lögð áhersla á að mikilvægt væri að ráðleggja fyrirtækjaeigendum meðan þeir væru í rekstri en horfa líka til þess að það að hafa rekið fyrirtæki, þó að það hafi ekki gengið eins og væntingar stóðu til, væri ástæða til að aðstoða menn til að vinna sig út úr því og nýta þá reynslu og þekkingu sem myndast við fyrirtækjarekstur til að fara aftur af stað og ekki væri settur einhver stimpill á fólk tengt þessu. Þá var fyrst og fremst verið að horfa til þess að í langflestum tilvikum þegar fyrirtæki lenda í örðugleikum er það vegna ytri aðstæðna. Það getur verið að lykilviðskiptavinur lendi í vandræðum, það getur verið svo einfaldur hlutur eins og þegar verið var að færa rúllustigann í Kringlunni, þá lentu fyrirtækin sem voru staðsett nálægt þeim rúllustiga í miklum örðugleikum. Annað dæmi varðandi verslunarrekstur var þegar verið var að helluleggja á Laugaveginum og viðgerðin stóð yfir í marga mánuði. Þá lentu ýmis fyrirtæki í örðugleikum bara vegna þess. Og svo áfram sé talið má nefna framkvæmdir hjá hinu opinbera, það að vegur sé færður til getur haft veruleg áhrif á rekstrargrundvöll fyrirtækis. Einnig má nefna veikindi, lykilstarfsmaður verður veikur eða eigandinn verður veikur.

Rannsóknir segja að í langflestum tilvikum séu þetta ástæður fyrir því að rekstur fyrirtækja gangi ekki upp. Viðskiptahugmyndin getur líka einfaldlega ekki gengið upp. Að sama skapi er náttúrlega mikilvægt að við komum í veg fyrir að menn misnoti kerfið vísvitandi á sviksamlegan hátt, með því sem við tölum kannski um sem kennitöluflakk. En við megum ekki stimpla fólk sem er búið að taka áhættu og leggja allt sitt undir fyrir sig og sitt samfélag í því að búa til störf. Starfsumhverfið á Íslandi verður að vera þannig að við styðjum við stofnun og rekstur fyrirtækja því að þaðan koma verðmætin, þar sköpum við störfin og þar að sjálfsögðu, sem er það sem okkur stjórnmálamönnum finnst einstaklega skemmtilegt, verða líka skatttekjurnar til sem við getum síðan ráðstafað í velferðarmálin sem við viljum svo gjarnan sinna. (Gripið fram í: Ekki þessari ríkisstjórn.)

Það sem er áhugavert að skoða varðandi vörugjöldin sérstaklega er að ég hefði einmitt talið að núverandi stjórnvöld, ekki hvað síst Samfylkingin, hefðu gjarnan viljað sjá víðtækari breytingar á þeim lögum frekar en bjóða bara upp á frestun á greiðslum. Það hefur verið aðeins skrifað um það í fjölmiðlum eins og við höfum kannski kynnt okkur og ég minni á grein sem þingmaður Samfylkingarinnar Magnús Orri Schram, fyrrverandi þingflokksformaður, skrifaði um breytingar á vörugjöldum. Annar samfylkingarmaður, Margrét Kristmannsdóttir, hefur líka töluvert talað fyrir því fyrir hönd verslunar og þjónustu. Og á árinu 2012 var skipaður starfshópur um heildarendurskoðun á vörugjaldakerfinu. Miðað við þetta hefði maður getað ímyndað sér að menn hefðu áhuga á því að gera ýmsar breytingar á vörugjaldakerfinu.

Bent hefur verið á að vörugjöld, eða það sem hefur verið kallað á ensku „excise tax“, hafa yfirleitt í flestum þeim löndum sem við berum okkur saman við verið bundin við tiltölulega fáa vöruflokka. Þar má nefna vöruflokka eins og olíu, tóbak, áfengi, sykur og jafnvel bifreiðar. Helsti munurinn á því hvernig við höfum þetta á Íslandi og hvernig vörugjöldin eru í þeim löndum sem við berum okkur saman við er að hér leggjast vörugjöld á mun fleiri vörutegundir. Í skýrslu Samtaka atvinnulífsins þar sem fjallað er einmitt um vörugjaldakerfið má sjá sýn samtakanna á það hvernig fyrirkomulagið þurfi að breytast og þau benda á tvennt sem þau eru sérstaklega ósátt við.

Í fyrsta lagi sé enginn fyrirsjáanleiki í því hvernig vörur eru flokkaðar innan vörugjaldakerfisins og í öðru lagi, og það sem ég stoppaði sérstaklega við, er að samtökin telja að núverandi fyrirkomulag leggist þyngra á ungt fólk og barnafjölskyldur en aðra hópa. Lögð eru vörugjöld á ýmsar byggingarvörur og það er náttúrlega oft ungt fólk sem er að kaupa sér húsnæði eða byggja húsnæði. Síðan er það unga fólkið og barnafjölskyldurnar sem eru að stofna heimili og þarf þá náttúrlega að kaupa sér ýmis heimilistæki til að geta stofnað eigið heimili. Þetta eru þeir flokkar sem eru sérstaklega áberandi innan vörugjaldakerfisins og gjöldin leggjast þar með enn frekar á ungt fólk.

Menn hafa líka bent á að vörugjaldakerfið mætti vera skynsamlegra og rökvísara að ýmsu leyti en líka að það geti stjórnað neysluhegðun eða jafnvel byggingarmynstri á Íslandi og leitt þar með til hærri byggingarvísitölu. Ég nefni til dæmis þá staðreynd að sagplötur og gifsplötur eru í mismunandi vörugjaldaflokkum. Þetta getur leitt til þess að menn velji vörutegundina sem er ódýrari og ber lægri vörugjöld.

Hvað varðar áherslur okkar framsóknarmanna fyrir næsta kjörtímabil, þegar við getum vonandi haft meira um skattkerfi og tekjuöflunarkerfi ríkissjóðs að segja, höfum við lagt áherslu á mikilvægi þess að einfalda kerfið og gera það skilvirkara. Langflest fyrirtæki á Íslandi eru lítil og meðalstór og það á ekki að vera þannig að atvinnurekendur, þurfi að eyða sífellt fleiri klukkustundum í að sinna skilum á skatti eða skilum á skýrslum til hins opinbera eða þurfi að velta alvarlega fyrir sér hvort fyrirtækið hafi efni á því að ráða starfsmann, hvort sem er í hlutastarf eða fullt starf. Það er grundvöllur þeirra gjalda sem er verið að borga í sameiginlega sjóði okkar. Við hljótum að eiga frekar að leggja áherslu á lykilkerfi okkar varðandi tekjuöflunina. Það er annars vegar virðisaukaskattskerfið og síðan staðgreiðslan, það eru þau kerfi sem skila ríkissjóði langstærstum hluta af tekjum sínum. Það er eitthvað sem ég held að þurfi að skoða, hvernig við getum gert þetta einfaldara og hvatt fyrirtæki til að skila auknum verðmætum til samfélagsins og ráða fleira fólk. Vinna, vöxtur, velferð — það er kjarninn í því sem við framsóknarmenn viljum tala fyrir, auk samvinnu og skynsemi.

Þó að þetta mál sé í sjálfu sér tiltölulega einfalt, framlenging á bráðabirgðaákvæðum sem hefur verið tiltölulega mikil samstaða um hér á þingi að veita fyrirtækjum, er svo mikilvægt að horfa á ástæðuna fyrir því að við bjóðum upp á þetta á annað borð og hvort ekki séu til betri, skilvirkari og einfaldari leiðir en endalaust að fresta vandanum og ýta honum á undan sér.