143. löggjafarþing — 92. fundur,  8. apr. 2014.

skýrsla Alþjóðamálastofnunar um aðildarviðræður við ESB.

[14:36]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér skýrslu Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands um aðildarviðræður Íslands við ESB. Mig langaði að vekja athygli á kafla skýrslunnar sem fjallar um efnahagsmál, afnám hafta og aðild að myntbandalagi en eftir að hafa lesið hann hratt yfir finnst mér hann skauta fulllétt yfir þau gríðarlegu vandamál sem myntbandalagið sjálft glímir við. Það er ekki varið miklum tíma í að tala um hið gríðarlega atvinnuleysi sem er á myntbandalagssvæðum, það er 12% almennt, um þrisvar sinnum hærra en hér, og atvinnuleysi meðal yngra fólks, þá er verið að tala um 35 ára og yngra, er talið í tugum prósenta. Tugir milljóna eru atvinnulausir í myntbandalaginu. Það er heldur ekki talað um hversu lengi myntbandalagið hefur verið að jafna sig eftir hrun og hversu mikla gagnrýni bandalagið hefur fengið á sig og hve miklar efasemdir menn hafi um að það jafni sig yfirleitt. Þessu hagsvæði er spáð afskaplega litlum og hægum vexti á næsta áratug.

Það er ekki talað mikið um hið gríðarlega innra ójafnvægi sem felst í því að núna eru 500 milljarðar evra í „Target 2“-kerfinu þar sem Suður-Evrópuríkin skulda Þýskalandi 500 milljarða vegna lána sem bankarnir hafa þurft að fá frá Evrópska seðlabankanum. Svo er gefið í skyn að hugsanlega mundi ESB veita lán til að losa höftin á Íslandi, það hafi nánast verið hugsanlegt og einhverjir ónefndir embættismenn telji það ekki útilokað, en hins vegar komi það ekki í ljós fyrr en á lokadegi samninga, alls ekki fyrr. En hefur einhver áhuga á því að ríkissjóður Íslands taki lán fyrir hundruð milljarða ef ekki þúsund milljarða svo að erlendir kröfuhafar geti losnað úr höftum krónunnar, geti tekið krónurnar sínar úr landi og breytt þeim í evrur? Er einhver hérna inni sem vill það? Ég held ekki. Það er ekki í boði í Evrópusambandinu og það hefur aldrei komið til tals, og ekki einu sinni ónafngreindir embættismenn hafa látið í það skína að hér getum við fengið styrki frá evrópskum skattgreiðendum upp á hundruð eða þúsundir milljarða til að leysa höftin. Það er sagt að við þurfum að gera það sjálf.

Það er líka gefið í skyn í þessum kafla að Seðlabankinn geti prentað evrur að vild. Ég ætla að lesa það, með leyfi forseta, á bls. 8:

„Með aðild Íslands að myntbandalagi Evrópu yrði Seðlabanki Íslands eitt af útibúum Evrópska seðlabankans og fengi þar með réttindi til prentunar á evrum. Með því fengi Seðlabankinn öflugt tæki til þess að varðveita fjármálastöðugleika og þjóna sem lánveitandi til þrautavara. Aukinheldur mun prentvald í evrum valda byltingu fyrir heimili og atvinnulíf þar sem verðbólga, gengisóstöðugleiki og vaxtasveiflur hyrfu í einni andrá.“

Eru þetta rósrauð gleraugu eða hvað? Ég veit ekki betur en bankar í sérumhverfi aðildarríkja, tökum t.d. Kýpur þar sem kom efnahagsskellur, hafi þurft að leita til seðlabankans, þeir gátu ekki lánað einkabönkum sínum sem voru á Kýpur peninga. Það þurfti meira að segja að setja fjármagnshöft vegna þess að útstreymið var orðið svo gríðarlegt. Ríkissjóður þurfti að ganga í ábyrgðir fyrir einkabankana og ég skil ekki hvernig hægt er að setja svona mikla einföldun á blað í skýrslu sem á að vera grundvöllur til ákvörðunartöku um hvort gott sé fyrir Ísland eða ekki að ganga í myntbandalag. Síðan þegar allt er dregið saman er vakin athygli á því neðar á bls. 8, með leyfi forseta, að auðvitað kemur einhver kostnaður á móti. Það er fórn að gefa eftir peningalegt sjálfstæði að einhverju leyti og líklegt að í kjölfarið muni fylgja meiri breytileiki í atvinnuleysi — meiri breytileiki í atvinnuleysi — þrefalt meira atvinnuleysi. Ég hef ekki fengið neinar vísbendingar eða ábendingar frá heimilunum á Íslandi um að þau vilji hafa þrefalt meira atvinnuleysi á Íslandi til að geta haft stöðugri gjaldmiðil. Verður hann eitthvað stöðugri? Verða vextirnir eins á svæðinu? Ég fæ það ekki séð. Núna eru vextir í Þýskalandi 1,5% af ríkisskuldabréfum og 7,7% í Grikklandi.