143. löggjafarþing — 92. fundur,  8. apr. 2014.

skýrsla Alþjóðamálastofnunar um aðildarviðræður við ESB.

[14:45]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. efnahags- og fjármálaráðherra fyrir að hafa brugðist svo fljótt og rösklega við þessari umræðu. Það er hagur góðra bænda að gera slíkt frekar en að fljúgast á við þá sem vilja eiga við þá orðastað, eins og hefur borið á um aðra forustumenn ríkisstjórnarinnar. Ég vil einnig þakka honum fyrir prýðilega málefnalega ræðu þótt ég hafi verið ósammála mörgu sem hæstv. ráðherra sagði.

Nú er það svo að eins og ég hefur hæstv. ráðherra fortíð í þessu máli, hann ber mikla ábyrgð. Það var til dæmis hæstv. ráðherra sem í elegant rökfærslu sinni fyrir nauðsyn þess að taka upp evru á síðasta áratug gerði mig að sannfærðum evrusinna. Það var líka hæstv. efnahags- og fjármálaráðherra sem lagði þann mælikvarða sem við verðum öll að leggja á þetta mál, og hann líka, og það er: Stenst það blákalt hagsmunamat íslensku þjóðarinnar að ganga í Evrópusambandið?

Ég er þeirrar skoðunar að þær tvær skýrslur sem hafa verið lagðar fram hér á síðustu vikum gefi tilefni til að skynsamur maður eins og hæstv. ráðherra komist ekki að annarri niðurstöðu en þeirri að það sé a.m.k. ekki í þágu hagsmunanna að klippa á möguleikann til 20 ára eins og hæstv. ráðherra hefur látið Framsóknarflokkinn kúga sig til, hugsanlega með voveiflegum afleiðingum fyrir hans eigin flokk. Röksemdafærsla hæstv. ráðherra var í sjálfu sér held en hún byrjaði á röngum fæti. Hæstv. ráðherra sagði að það væri einkum tvennt sem gerði það að verkum að hann teldi algerlega rangt að taka þetta skref núna. Í fyrsta lagi sagði hann, og vísaði til merkra manna, að Evrópusambandið væri að þróast í sambandsríki og einnig sagði hann að það væri stöðnun fram undan.

Hæstv. ráðherra verður að vera samkvæmur sjálfum sér. Hann sagði sjálfur að menn ættu að fá óháða stofnun til að búa til skýrslu og taka ákvörðun á grundvelli hennar.

Stefán Már Stefánsson prófessor, færasti Evrópusérfræðingur þjóðarinnar, sem seint verður talinn til æstustu Evrópusinna gerði mjög merkan kafla í þeirri skýrslu og ein af þeim niðurstöðum sem hann komst að var þvert á það sem hæstv. ráðherra var að segja áðan. Hann leiddi gild rök að því að Evrópusambandið væri ekki sambandsríki og það væri ekki að þróast í átt að sambandsríki.

Hæstv. ráðherra talar um að stöðnun sé fram undan. Hvað sagði hæstv. ráðherra og nótar hans úr Framsóknarflokknum, eins og hæstv. núverandi forsætisráðherra, allt síðasta kjörtímabil? Evrusvæðið er að hrynja. Ef ekki á morgun þá örugglega í næstu viku. Ef ekki þá, örugglega í næsta mánuði. Hvað gerðist? Evran styrktist. Við sjáum það núna að þegar hæstv. ráðherra talar um stöðnun fram undan, jafnvel áratuga stöðnun, eru ríki að greiða atkvæði um það með því að flytja í óðaönn gjaldeyrisvaraforða sinn yfir í evruna. Það er töluvert hraustleikamerki segi ég. Hitt er rétt hjá hæstv. ráðherra að það er ekki hægt að meta þetta einungis út frá einum þætti eins og evrunni. Við verðum líka að horfa til mála eins og sjávarútvegsmálanna. Það er grundvallaratvinnuvegur.

Þá ber svo við nýrra tíðinda að í þeirri skýrslu sem við erum að ræða eru algerlega nýjar upplýsingar. Þar kemur skýrt fram að það sem við töldum að yrði erfiðast við að eiga, eins og t.d. kröfuna um réttinn til gagnkvæmra fjárfestinga, hugsanlega er hjáleið fram hjá því vandamáli með sérlausn sem er rakin í skýrslunni. Það er ekki hægt að ganga úr skugga um það nema með samningum. Ég ætla ekki að segja að það gengi upp vegna þess að ég var alltaf skeptískur á það. En það breytir ekki hinu að hugmyndirnar sem koma þar fram, sömuleiðis um forsvar Íslendinga í samningum við þriðja ríki ef við gengjum inn, einnig nýjar upplýsingar um rök fyrir því að við ættum að geta krafist sérstaks fiskveiðistjórnarsvæðis, eru svo mikilvægar að það er ekki hægt að kasta þessum skýrslum út af borðinu. Menn hljóta að staldra við. Í þessari stöðu eiga menn að gera það sem hæstv. ráðherra lofaði, fara í þjóðaratkvæðagreiðslu og leyfa þjóðinni að ráða. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)

Herra forseti. Ef ríkisstjórnin treystir sér ekki til að verða við niðurstöðum þjóðaratkvæðagreiðslu sem hún lofaði sjálf veit ég að við erum sammála um að þá eigi hún að víkja.