143. löggjafarþing — 92. fundur,  8. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[18:54]
Horfa

Páll Jóhann Pálsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil meina að Framsóknarflokkurinn sé félagshyggjuflokkur, (Gripið fram í: Hah!) ég leyfi mér bara að halda því fram.

Hv. þingmaður spurði: Af hverju er verið að lækka greiðslur fyrir þá sem ekki hafa orðið fyrir forsendubresti? Það er ekkert verið að því. Þeir fá leiðréttingu sem voru með lán á þessum tíma þar sem forsendubresturinn var, hann er skilgreindur með tímasetningu. Almenn aðgerð snýst ekki um að draga fólk í dilka. Almenn aðgerð snýst um að allir fái sömu leiðréttingu, það er ekki flóknara en það.

Landsbyggðin, ég leyfi mér að halda því fram að þetta komi öllum jafnt til góða hvort sem þeir eru á landsbyggðinni eða hérna á höfuðborgarsvæðinu. Ég hugsa að skuldirnar séu miklu meiri hérna á höfuðborgarsvæðinu þar sem húsnæðið er miklu dýrara og að þar komi þakið til, þar sé fólk frekar upp undir þakinu.

Ég spyr hv. þingmann: Hvað fannst henni þá um þá aðgerð sem gerð var af síðustu ríkisstjórn, að byrja á að leiðrétta og verja fjármagnseigendur með því að veita hærri upphæð til þeirra en sem nú verið er að setja í heimilin? Hvað fannst henni um þá ákvörðun?

(Forseti (ÞorS): Forseti áminnir þingmenn um að ávarpa hver annan háttvirtan og með nafni.)