144. löggjafarþing — 92. fundur,  20. apr. 2015.

landsskipulagsstefna 2015--2026.

689. mál
[17:59]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigrún Magnúsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka góðar undirtektir og tek heils hugar undir þau lokaorð hv. þm. Höskuldar Þórhallssonar hér áðan að málið komist fljótt til nefndar, verði þar í góðum höndum nefndarmanna og að vel verði unnið að því. Ég hef trú á að svo verði. Ég þakka þingmönnum fyrir undirtektirnar en þetta er í fyrsta skipti sem hér á Alþingi er mælt fyrir landslagsskipulagsstefnu. Það er rétt, sem líka hefur komið fram, að slík stefna hefur áður verið samin þó að þessi sé með svolítið breyttu sniði, en þetta er í fyrsta skipti sem við mælum fyrir svona merkilegu plaggi sem er með heildarsýn yfir landið og setur sér áðurnefnd fjögur meginmarkmið og hvernig eigi að vinna úr því.

En auðvitað er, eins og fram kom í máli manna, eitt og annað sem menn bæði fagna en vilja kannski einnig fá nánari skilgreiningu á. Þetta er það víðfeðmt að mér datt ekki annað í hug en svo væri. Sérstaka ánægju hafði ég samt af orðum hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar um orðið seiglu, því að þetta stóð líka í þeirri sem hér stendur. Þetta gamla orð, seigla, er fallegt íslenskt orð og stendur fyrir ákveðið viðnám; einhver er seigur og seiglast áfram, gefur ekki eftir. En þetta getur líka haft víðtækari mynd. Það er gaman ef gömul orð geta öðlast nýja vídd og merkingu í íslenskri tungu. Það auðgar íslenskt mál og ekki veitir af um þessar mundir. Ég hafði sérstaklega gaman af því að þingmaðurinn skyldi geta um þetta.

Það var sannarlega líka rétt hjá þeim þingmanni að mikil vinna hefur verið lögð í þessa þingsályktunartillögu, gríðarleg vinna. Það er búið að halda ótal fundi og ekki bara á einum stað heldur hefur verið farið um allt land. Menn voru jafnvel beðnir um að rissa upp hvernig þeir sæju fyrir sér landið líta út skipulega séð og flokka það niður. Þær myndir eru til í bæklingi sem hægt er að fá. Þetta er því virkilega ánægjuleg og skemmtileg vinna og gríðarlega mikil, svo að því sé til skila haldið.

Mig langar til að fletta upp á bls. 25 og áfram á bls. 27. Þar er til dæmis fjallað um ferðaþjónustu í sátt við náttúru og umhverfi og jaðarmiðstöðvar. Þær eru núna fjórar og talað er um að sá fjöldi verði áfram. Þá er skilgreint hvernig þessar fjórar jaðarmiðstöðvar geti byggst upp og hvaða þjónustu geti boðið. Við getum ekkert horft fram hjá því að með auknum ferðamannastraumi verður að vera hægt að bjóða upp á ýmsa möguleika og þjónustu en þessar jaðarmiðstöðvar mega bjóða upp á gistingu á hótelum, gistiheimilum eða í gistiskálum.

Síðan koma hálendismiðstöðvar, þær eru taldar upp níu og tíundað hvar þær eru. Þá komum við að skálasvæðum, þau eru ein 33 sem þarna eru tilnefnd og síðan er fjallað um fjallasel. Hér segir, með leyfi forseta:

„Við ákvörðun um staðsetningu nýrra fjallaselja skal tekið mið af því að fjarlægð milli jaðar- og hálendismiðstöðva, skálasvæða og fjallaselja sé jafnan hæfileg dagleið fyrir göngufólk.“

Þannig er komið inn á göngugarpana sem aðeins hefur verið minnst á hér. Ég var farin að sjá þetta þannig fyrir mér í gær þegar ég var að velta ferðum göngufólks fyrir mér þar sem ekki eru skálasvæði, hvaða þjónustu menn geta haft þar sem ekki eru skálar eða sel, hvort þurrsalerni væru lausn á afskekktum stöðum.

Ég þarf ekki að hafa mörg orð um þetta. Ég vonast til að vinnan í nefndinni verði árangursrík og að menn samþykki þetta án mikilla breytinga. Það er von mín því að yfir þessu hefur verið legið þannig að ég vonast til að þingmenn þurfi ekki miklu að breyta.

Ég þakka enn og aftur fyrir góðar undirtektir og vonast eftir góðri samvinnu um landsskipulagsstefnuna.