145. löggjafarþing — 92. fundur,  4. apr. 2016.

skýringar forsætisráðherra á aflandsfélagi.

[16:58]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Mér var þungt fyrir brjósti þegar við hófum þingfund hér á fjórða tímanum og ég verð því miður að segja að mér er enn þyngra fyrir brjósti eftir að hafa hlustað á svör hæstv. forsætisráðherra í óundirbúnum fyrirspurnatíma. Forherðing forsætisráðherra virðist vera algjör þar sem hann þrætir fyrir það að eiga eignir í skattaskjóli og virðist halda að hann geti sjálfur skilgreint hvað sé skattaskjól. Þetta er algjörlega óboðlegt úr munni hæstv. forsætisráðherra sem er svo auðvitað rokinn úr þingsalnum.

Ég er hrædd um að miðað við þessa forherðingu sé því miður ekki mikil von til þess að hæstv. forsætisráðherra sjálfur ætli að segja af sér og stíga til hliðar. Þá er ekkert annað í boði en að Alþingi taki málin í sínar hendur. Það er ekki annað hægt að gera en að lýsa vantrausti á hæstv. forsætisráðherra. Það er alveg ljóst eftir fyrirspurnatímann í dag að hann ætlar ekki að sjá sóma sinn í því sjálfur að víkja.