145. löggjafarþing — 92. fundur,  4. apr. 2016.

skýringar forsætisráðherra á aflandsfélagi.

[17:15]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Herra forseti hefur upplýst að hann hefur tekið þau mál sem voru á dagskrá af dagskrá og ég held að það sé útséð með þinghald hér fyrr en einhver botn fæst í þetta mál. Það sem upp úr stendur er að samkvæmt listum íslenskra stjórnvalda eru Bresku Jómfrúreyjarnar skattaskjól. Þar er félagið Wintris með heimilisfesti. Það félag er í eigu konu forsætisráðherra. Eigi að síður kemur hæstv. forsætisráðherra hér upp og segir: Hvorki ég né kona mín höfum átt eignir í skattaskjóli. Þannig er þetta. Þetta er umræðan sem við er að eiga, herra forseti. Þetta er ekki boðlegt. Þetta eru ekki skýringar sem mark er takandi á. Það þýðir ekki að byrja svo að tala eitthvað út í loftið um að Svíþjóð sé líka skattaskjól eins og hæstv. forsætisráðherra gerði. Hæstvirtum forsætisráðherra sem kemur hér og segir svona við Alþingi Íslendinga er ekki sætt.