150. löggjafarþing — 92. fundur,  22. apr. 2020.

aðgerðir í þágu atvinnulausra vegna COVID-19 heimsfaraldursins.

723. mál
[22:01]
Horfa

Flm. (Logi Einarsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er ánægjulegt að maður heyri stuðning við þessar hugmyndir frá bæði Pírötum og Flokki fólksins en það kemur mér sannarlega ekki á óvart. Ég ætla ekki endilega að nýta mér seinni andsvararéttinn heldur bara rétt hnykkja á því fyrst verið var að bera þetta saman að upphæðin er fundin út með því að þetta er krónutöluhækkun samkvæmt lífskjarasamningnum. Listamannalaunin eru auðvitað verktakagreiðsla sem lýtur aðeins öðru lögmáli og nettóupphæðin sem fer í vasa listamannsins er ekki sú tala.

En fyrst hv. þingmaður kom inn á sultarkjör aldraðra og öryrkja minni ég á að á þinginu er frumvarp sem ég lagði fram síðasta haust um að kjör þeirra myndu hækka samsvarandi og lífskjarasamningurinn. Ég reikna með því að hv. þingmaður styðji okkur í að koma því máli áfram. Mig minnir reyndar að hann hafi tekið undir þá.