150. löggjafarþing — 92. fundur,  22. apr. 2020.

aðgerðir í þágu atvinnulausra vegna COVID-19 heimsfaraldursins.

723. mál
[22:02]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Loga Einarssyni fyrir þessi orð. Ég tek alveg heils hugar undir með honum, ég er innilega sammála honum í allri þeirri baráttu sem við stöndum í fyrir þá sem verst hafa það í okkar þjóðfélagi. Við erum ríkt þjóðfélag og þurfum ekki hafa þetta svona. Við eigum núna að hafa vit til þess að stöðva svona óréttlæti. Við megum ekki gleyma því og við þurfum að hafa það alveg innprentað að við erum að henda krónum og spara aura með þessu. Það er margsannað að það að halda fólki í fátækt eða sárafátækt bitnar á þjóðfélaginu. Það verður dýrara fyrir ríkið. Eins og komið hefur mjög skýrt fram styttir það lífslíkurnar um 10–12 ár. Það er alveg ömurlegt til þess að vita sem og að þetta kostar líka álag á heilbrigðiskerfið og alls konar kerfi sem veldur því að kostnaðurinn verður margfalt meiri. Þess vegna er þetta svo undarlegt fyrirbrigði, að við skulum ekki vera þróaðri og komin lengra í þróuninni, að við skulum enn hafa svona kerfi og að við skulum alltaf þurfa að tala um þetta en framkvæmum ekki.

Ég vona heitt og innilega að við þurfum ekki enn eina ferðina að fara í gegnum kosningar og lofa krónu á móti krónu skerðingunni burtu, þetta á móti hinu og svo stenst það ekki. Það er ömurlegt og við eigum að sjá til þess í eitt skipti fyrir öll að allir geti átt mannsæmandi líf á Íslandi.