151. löggjafarþing — 92. fundur,  10. maí 2021.

sérhæfð sérdeild fyrir einhverf börn.

[13:24]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M):

Herra forseti. Áhyggjufullir foreldrar einhverfs barns sneru sér til mín fyrir skömmu og sýndu mér bréf Reykjavíkurborgar vegna barns síns sem fætt er árið 2015 og á því að byrja grunnskólagöngu í haust. Fyrir liggur niðurstaða Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins um að barninu sé best borgið í sérdeild fyrir einhverfa og þar var sótt um fyrir barnið. Foreldrunum barst svar frá skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar 21. apríl með eftirfarandi yfirskrift, með leyfi forseta:

„Fyrirhuguð synjun umsóknar um skólavist í sérhæfðri sérdeild fyrir einhverfa nemendur.“

Í bréfinu kemur fram að sótt hafi verið um fyrir 38 nemendur í sérdeildum en aðeins átta pláss séu til ráðstöfunar.

Í lögum um grunnskóla segir um rétt nemenda, með leyfi forseta:

„Allir nemendur grunnskóla eiga rétt á kennslu við sitt hæfi í hvetjandi námsumhverfi í viðeigandi húsnæði sem tekur mið af þörfum þeirra og almennri vellíðan.“

Fyrirhuguð synjun um skólavist í sérhæfðri sérdeild fyrir einhverfa nemendur fer í bága við þetta afdráttarlausa ákvæði grunnskólalaga. Samkvæmt lögum um grunnskóla er sú kennsla á ábyrgð og kostnað sveitarfélags þar sem barnið býr, Reykjavíkurborgar í þessu tilfelli. Menntamálaráðuneyti hefur eftirlit með því að sveitarfélög uppfylli þær skyldur sem grunnskólalögin kveða á um. Ráðherra skal á þriggja ára fresti leggja fram á Alþingi skýrslu um framkvæmd skólastarfs í grunnskólum landsins.

Af þessu tilefni spyr ég hæstv. ráðherra, í fyrsta lagi: Hver eru viðbrögð hæstv. ráðherra við tilvitnuðu bréfi borgaryfirvalda?

Í öðru lagi: Hefur hæstv. ráðherra gripið til aðgerða vegna málsins, sem snertir a.m.k. 30 börn, eða áformar hæstv. ráðherra aðgerðir á næstunni?

Og loks: Hvert er að dómi hæstv. ráðherra inntak þeirrar eftirlitsskyldu sem lögin leggja ráðherra á herðar?