Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 92. fundur,  30. mars 2023.

landbúnaðarstefna til ársins 2040.

914. mál
[14:13]
Horfa

matvælaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir þingsályktunartillögu á þskj. 1430, 914. mál. Um er að ræða tillögu til þingsályktunar um landbúnaðarstefnu fyrir Ísland og sú stefna sem hér er lögð til nær til ársins 2040. Stefna stjórnvalda í landbúnaðarmálum hefur hingað til einkum birst í búvörulögum og búnaðarlögum og síðar í búvörusamningum, en mikilvægt er að í gildi sé opinber stefna í landbúnaði svo hægt sé að taka mið af henni við setningu löggjafar á öðrum sviðum, auk þess sem slík stefna stuðlar að því að öll áætlanagerð og stefnumótun hins opinbera, sérstaklega er varðar landbúnað, verði samhæfð. Þetta skiptir máli þar sem hluta af því regluverki sem skiptir landbúnaðinn miklu er að finna hjá öðrum ráðuneytum en mínu ásamt því að sveitarfélög gegna auðvitað miklu hlutverki. Stefna í landbúnaði sem hefur fengið þinglega meðferð mun verða að miklu gagni, líka utan matvælaráðuneytisins þar sem tillagan er samin.

Mótun landbúnaðarstefnu sem þessi tillaga byggir á á sér nokkuð langan aðdraganda. Árið 2018 var skipaður samráðshópur um fyrri endurskoðun búvörusamninga og meðal þess sem sá hópur lagði til var að unnin yrði sviðsmyndagreining um framtíð landbúnaðarins til ársins 2040. Í kjölfarið vann ráðgjafarfyrirtækið KPMG slíka greiningu sem fól í sér umfangsmikla gagnaöflun með þátttöku yfir 400 manns. Í þeirri greiningu var hvatt til þess að unnin yrði landbúnaðarstefna og árið 2020 var verkefnisstjórn um landbúnaðarstefnu fyrir Ísland skipuð. Verkefnisstjórnin skilaði umræðuskjalinu Ræktum Ísland! til þáverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra í mars 2021 og það umræðuskjal var síðan sett í opið samráð og þáverandi ráðherra boðaði til tíu funda víða um land ásamt því að halda opinn rafrænan fund til að ræða skjalið og kalla eftir hugmyndum og ábendingum. Í kjölfarið var unnið úr öllum þeim athugasemdum sem bárust og skilaði verkefnisstjórnin skjalinu Landbúnaðarstefnan Ræktum Ísland! í ágúst 2021.

Þingsályktunartillagan sem hér er lögð fyrir Alþingi byggir á umræddu skjali en þó hefur það skjal verið aðlagað annarri stefnumótun á málefnasviðinu sem unnin hefur verið og birt eftir útgáfu þess rits. Fyrst ber að nefna stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar þar sem áhersla er m.a. lögð á eflingu íslensks landbúnaðar. Í febrúar 2022 kynnti ég svo áherslur og verklag við stefnumótun á sviði matvæla og þá var tillögum og greinargerð Landbúnaðarháskóla Íslands um aðgerðir til að auka fæðuöryggi skilað til ráðuneytisins í apríl 2022. Auk þess var Land og líf, sem er fyrsta sameinaða stefnan í landgræðslu og skógrækt, birt í ágúst 2022, auk samræmdrar aðgerðaáætlunar. Enn fremur kynnti ég drög að matvælastefnu í nóvember 2022 og hefur sú stefna einnig verið lögð fram í þingsályktunarformi hér á þinginu og verður rædd síðar á þessum þingfundi.

Þingsályktunartillaga þessi er einnig unnin með hliðsjón af áherslum mínum sem matvælaráðherra sem og nýs matvælaráðuneytis eftir að það tók til starfa hinn 1. febrúar 2022 og til viðbótar tekur tillagan mið af þeirri þróun sem hefur átt sér stað eftir útgáfu Ræktum Ísland! Heimsfaraldur kórónuveiru og innrás Rússlands í Úkraínu hafa breytt ýmsum forsendum sem áður voru taldar sjálfgefnar. Í þingsályktunartillögunni er því m.a. aukin áhersla lögð á fæðuöryggi, loftslagsmál og hringrásarhagkerfið.

Drög að þingsályktunartillögunni voru birt á samráðsgátt stjórnvalda í febrúar síðastliðnum og bárust 26 umsagnir frá stofnunum, hagsmunasamtökum, sveitarfélögum og einstaklingum. Margir umsagnaraðilar fögnuðu fram kominni tillögu að landbúnaðarstefnu en eins og við mátti búast voru skiptar skoðanir á sumum atriðum, m.a. á því hvernig beri að haga fyrirkomulagi stuðnings við landbúnað, sem er 10. kafli stefnunnar. Settar voru fram ýmsar breytingartillögur á stefnunni sem skoðaðar voru við vinnslu hennar. Þá sneri fjöldi athugasemda að því hvernig væri best að ná markmiðum stefnunnar en ákvarðanir um það bíða aðgerðaáætlunar sem kveðið er á um í stefnunni. Um þá áætlun verður haft sérstakt samráð þegar þar að kemur. Enn fremur var brugðist við ýmsum athugasemdum, ýmist með breytingum eða viðbótum við tillöguna eða greinargerðina.

Landbúnaðarstefnan eins og hún er lögð fram hér byggir á þremur lykilbreytum sem talið er að muni hafa mikil áhrif á þróun landbúnaðar á komandi árum, þ.e. landnýtingu, loftslagsmálum og umhverfisvernd og tækni og nýsköpun. Í tillögunni er sett fram metnaðarfull framtíðarsýn sem snertir umgjörð landbúnaðar í heild sinni og tekur til umhverfis, samfélags og samkeppnishæfni þess starfsvettvangs sem framleiðsla landbúnaðarafurða er. Til þess að framtíðarsýnin verði að veruleika er lagt til að áhersla verði lögð á tíu meginviðfangsefni en þau eru: fæðuöryggi, loftslagsmál, líffræðileg fjölbreytni, landnýting og varðveisla landbúnaðarlands, hringrásarhagkerfið, alþjóðleg markaðsmál, neytendur, nýsköpun og tækni, menntun, rannsóknir og þróun og að lokum fyrirkomulag stuðnings við landbúnað. Í greinargerð með stefnunni er gerð nánari grein fyrir hverju og einu þessara meginviðfangsefna og er vísað til greinargerðarinnar hér við þessa umræðu.

Meginmarkmið stefnunnar er að efla og styðja við íslenskan landbúnað þannig að Ísland verði leiðandi í framleiðslu á heilnæmum landbúnaðarvörum og með sjálfbæra þróun að leiðarljósi. Til að hrinda stefnunni í framkvæmd er kveðið á um að gerðar verði aðgerðaáætlanir til fimm ára í senn og þær áætlanir birtar. Það skiptir miklu máli á öllum tímum að stefnumótun sé tengd aðgerðaáætlun og svo eftir atvikum fjármálaáætlun og fjárlagagerð og samþykkt fjárlaga frá Alþingi.

Framleiðsla landbúnaðarafurða varðar samfélagið allt og þessari stefnu er ætlað að skapa sterkar stoðir fyrir innlenda landbúnaðarframleiðslu til framtíðar til hagsbóta fyrir samfélagið í heild. Öll þessi stefnumótun miðar að því að styrkja stoðir fæðukerfis íslensks samfélags með fjölþættum hætti. Fæðukerfið er margbrotið og margir þættir sem hafa áhrif á það. Það er mikilvægt að hafa í huga að í þessari tillögu um matvælastefnu, tillögu um landgræðslu og skógrækt og öðrum þeim stefnum sem fyrir liggja og hafa ýmist verið samþykktar hér í þinginu eða verið lagðar fram á öðrum vettvangi, er verið að róa í sömu átt, í þá átt sem lýtur að því að efla hér fæðuöryggi, styrkja stoðir, möguleika og framtíðarsókn fyrir íslenskan landbúnað og íslenska matvælaframleiðslu, stefna að því að draga úr kolefnisspori með því miða að því að við náum metnaðarfullum loftslagsmarkmiðum og loks auðvitað að halda ákveðnu samhengi í uppbyggingu velferðarkerfisins.

Virðulegur forseti. Ég hef lokið máli mínu og væntanlega verður þingsályktunartillögunni vísað til þóknanlegrar meðferðar hv. atvinnuveganefndar.