Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 92. fundur,  30. mars 2023.

landbúnaðarstefna til ársins 2040.

914. mál
[14:28]
Horfa

matvælaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir að halda þessum mikilvægu sjónarmiðum til haga. Þar sem ég hef verið á erlendum vettvangi og hitt kollega mína í landbúnaðarráðuneytum, kannski fyrst og fremst í Evrópu en víðar líka, þá er verið að fjalla um tiltekin viðfangsefni eins og loftslagsmál, fæðuöryggi o.s.frv. en líka um nýliðun og það að bændastéttin er að eldast og búum er að fækka. Umræðan um afkomu er því gríðarlega ríkjandi í þessu öllu saman. Þegar við erum að tala um nýliðun og þegar við erum að tala um að ungt fólk geti tekið við og geti stigið inn í framtíðina og inn í nútímann sem nútímaframleiðendur á landbúnaðarafurðum þá skiptir afkoman öllu máli. Ég tek því bara undir þau sjónarmið. Síðan er það spurning með hvaða orðalagi það nákvæmlega er gert. Að mínu mati hafði verið ágætlega um það búið með því að vísa til framleiðenda landbúnaðarvara en ég treysti hv. atvinnuveganefnd vel til að fjalla um þessi mál og önnur. Það er sannarlega mikilvægt að snert sé með skýrum hætti á þeim sjónarmiðum sem lúta að afkomunni vegna þess að það er einn af grundvallarþáttum þess að greinin geti vaxið og dafnað.